Smáforrit leiða til fjölgunar HIV-smita

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Aukin notkun stefnumóta-smáforrita meðal ungra samkynhneigðra karlmanna er einn þeirra þátta sem hefur leitt til aukinnar útbreiðslu HIV meðal táninga í Asíu. Þetta eru niðurstöður rannsóknar á vegum Sameinuðu þjóðanna, en þar segir m.a. að smáforritin hafi fjölgað tækifærum til skyndikynna.

HIV-smitum hefur fjölgað mest meðal karlmanna sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum, en aðrir viðkvæmir hópar eru kynlífsstarfsmenn, eiturlyfjaneytendur og ungt transfólk.

Wing-Sie Cheng, ráðgjafi Unicef í málefnum er varða HIV og alnæmi, segir unga samkynhneigða menn nú nota snjallsímaforrit til að stunda skyndikynni. Um sé að ræða áhættuhegðun sem eykur líkurnar á HIV-smiti og rannsakendur séu þess fullvissir um að tengsl séu á milli aukinnar notkunnar stefnumóta-smáforrita og aukinnar útbreiðslu HIV.

Í ítarlegri frétt Guardian um málið segir m.a. að ungmenni séu líklegri til að deyja af völdum alnæmis en aðrir, þar sem þau óttast fordóma og að afhjúpa kynhneigð sína gagnvart fjölskyldu og yfirvöldum. Í mörgum löndum Asíu geta 18 ára og yngri ekki gengist undir HIV-próf nema með samþykki foreldra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert