Lekandi gæti orðið ólæknandi

Lekandi er kynsjúkdómur sem getur haft langvarandi og alvarlegar afleiðingar …
Lekandi er kynsjúkdómur sem getur haft langvarandi og alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu fólks. mbl.is/Eggert

Landlæknir Bretlands er sagður hefur ritað læknum og apótekum bréf þar sem hann varar við afbrigði af lekanda sem er ónæmur fyrir sýklalyfjum. Kynsjúkdómurinn geti orðið ólæknandi vegna þessa ónæmis sem leiðir af ofnotkun manna á sýklalyfjum.

Í bréfinu hvetur Sally Davies, landlæknir, breska lækna til þess að fara eftir viðmiðum um rétta meðferð í tilfellum sem þessum. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að margir læknar skrifa enn upp á sýklalyfið azithromycin en ekki hefur verið mælt með að það sé notað í um áratug. Áður hefur verið sagt frá uppgangi sýkla sem eru ónæmir fyrir lyfinu.

Breskt félag um kynheilsu og HIV-veiruna sagði í september að í það minnsta sextán tilfelli hafi komið upp um lekanda sem er ónæmur fyrir sýklalyfjum frá því í mars.

Washington Post skýrir frá því að í Bandaríkjunum sé ástandið ekki betra. Sjúkdóma- og smitvarnastofnun landsins hafi skilgreind lekanda sem aðsteðjandi ógn árið 2013. Þá hafi tölur stofnunarinnar bent til þess að um þriðjungur allra tilfella lekanda í Bandaríkjunum væru vegna sýkla sem væru ónæmir fyrir að minnsta kosti einni tegund sýklalyfja.

Lekandi getur haft alvarlegar langtímaafleiðingar fyrir heilsu fólks ef hann er ekki meðhöndlaður. Þannig getur hann valdið ófrjósemi og mögulega lífshættulegum bólgum í mjaðmagrind kvenna. Séu þungaður konur smitaðar af sjúkdómnum getur hann valdið blindu í nýfæddum börnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert