NASA þarf á konum að halda

Rannsóknir í geimstöðinni eru eitt af því sem heyrir undir …
Rannsóknir í geimstöðinni eru eitt af því sem heyrir undir Ellen Stofan og kollega hennar. AFP

Ellen Stofan, yfirvísindamaður hjá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, kemur fyrir sem hógvær kona þegar hún sest niður með blaðamanni við aðalinnganginn á Háskólanum í Tromsö. Þar stóð yfir norðurslóðaráðstefnan Arctic Frontiers og var Stofan meðal ræðumanna. Þar fjallaði hún meðal annars um rannsóknir starfsfélaga sinna hjá NASA á bráðnun íss á norðurslóðum. Sagði hún það álit vísindamanna NASA að herða muni á bráðnun íss á Grænlandsjökli.

Stofan er doktor í jarðfræði og fjallaði doktorsritgerð hennar um rannsóknir á Venusi.

„Sem yfirvísindamaður NASA veiti ég Charles Bolden, stjórnanda NASA, ráðgjöf um stefnumótun í vísindarannsóknum hjá stofnuninni. Ég fylgist með þeim fimm rannsóknarsviðum sem við höfum hjá NASA; jarðvísindum, rannsóknum á reikistjörnum í sólkerfi okkar, stjarneðlisfræði, rannsóknum á sólinni og loks daglegum rannsóknum okkar í Alþjóðlegu geimstöðinni sem eru liður í undirbúningi að leiðöngrum til Mars,“ segir Stofan um starf sitt.

Fyrirmyndir eru mikilvægar

Talið berst næst að stöðu kvenna í bandarísku vísindalífi.

Stofan segir ekki hægt að halda því fram að hlutirnir hafi ekki þróast til betri vegar í Bandaríkjunum.

„Þegar hins vegar er haft í huga að konur eru aðeins 20-30% starfsmanna í raungreinum, tölvufræði og verkfræði er ljóst að við eigum enn nokkuð í land. Staðan er aðeins betri í greinum sem tengjast líffræði og loftslagsrannsóknum. Hvers vegna er þetta mikilvægt?“ spyr Stofan.

„Ef við ætlum að öðlast skilning á erfiðum vandamálum, vinna að loftslagsmálum, aðstoða NASA við mannaða leiðangra til Mars og fást við samfélag sem verður sífellt tæknilegra, erum við aðeins að virkja lítinn hluta mannfjöldans með því að nýta aðeins krafta hvítra karla, en ekki krafta kvenna eða fólks sem er ekki hvítt og leyfa þannig hæfileikum allra að blómstra. Rannsóknir benda til þess að krakkar þurfi fyrirmyndir. Krakkar þurfa að sjá að þeir eru velkomnir. Þeir þurfa að fá hvatningu frá kennurum og heyra að vísindi séu raunhæfur starfsvettvangur. Það þarf að sýna þeim að þetta er gaman. Sjálf fæ ég að rannsaka eldfjöll. Samstarfsmenn mínir eru að rannsaka vetrarbrautir og myndun þeirra. Við höfum verkfræðinga sem stýra könnunarförum á yfirborði Mars. Við fáum að skemmta okkur. Þegar krakkar eru að leggja jöfnur á minnið, eða að vinna að lausn vísindalegs vandamáls, þurfa þeir að vita að vísindin geta boðið upp á skemmtilega hluti.“

Getur verið letjandi

– Eru einhverjar hindranir, eða fordómar, í vegi kvenna í bandarísku vísindasamfélagi?

„Þeir eru mjög margir karlarnir í vísindum og verkfræði sem eru mjög hvetjandi fyrir konur. Aðrir eru það hins vegar ekki. Þegar horft er til háskóladeilda í vísindum og verkfræði er hlutfall kvenna í kennaradeildum 20-30%. Það þýðir að þegar ungar konur eru komnar að krossgötum á sínum ferli, og velta því fyrir sér hvort þær eigi að gera vísindin að ævistarfi, sjá þær ekki marga eins og þær. Þannig er staðan. Þetta er ekki spurning um að einhver þurfi að letja þig, heldur er hægt að láta letja sig með því að horfa í kringum sig. Konur virðast ekki ná árangri og þær kunna að spyrja sig hvort þær eigi heima annars staðar en í vísindum.“

– Hvað er hægt að gera til að fá konur til að halda áfram í vísindum á þessu mikilvæga tímabili?

„Hluti af því varðar sjálfstraust. Margar rannsóknir benda til að þegar stúlkur eru í svona aðstæðum, og horfa í kringum sig en sjá engan eins og þær sjálfar, sé það letjandi fyrir þær,“ segir Stofan og bendir á verkefni sem eru unnin um heim allan til að byggja upp sjálfstraust stúlkna, til dæmis við forritun.

„Slík verkefni sýna stúlkum fram á að forritun er ekki aðeins fyrir stráka, heldur eitthvað sem þær geta fengist við. Sjálf var ég ekki besti stærðfræðinemandinn í heiminum. Ég hef ekki tölu á hversu margar konur hafa sagt við mig að þær hefðu farið í vísindi, ef þær hefðu ekki átt í erfiðleikum með stærðfræði. Sjálf átti ég erfitt með stærðfræðina. Faðir minn var verkfræðingur og móðir mín vísindakennari. Þau sögðu mér að halda áfram, ég gæti vel það sem ég ætlaði mér. Stundum þarf hvatningu,“ segir Stofan en faðir hennar, Andrew, þróaði m.a. eldflaugar fyrir NASA.

Stofan segir að í mars verði söfn í Bandaríkjunum helguð hinni ósögðu sögu kvenna í vísindum og tækni.

„Uppáhaldssagan mín er af blökkukonunni Katherine Johnson, sem starfaði sem stærðfræðingur hjá NASA. Þetta var í Suðaustur-Virginíu og það má ímynda sér hvað hún þurfti að leggja á sig á hverjum degi til að komast í vinnuna. Hún var ótrúlegur stærðfræðingur og varð að lokum sú sem reiknaði brautirnar sem geimfararnir í Gemini og Mercury-leiðöngrunum fóru eftir.“

Konan sem fáir þekkja

„Sú saga hefur verið sögð af geimfaranum John Glenn að hann hafi spurt hvor stúlkan frá Langley í Virginíu hefði farið yfir útreikingana. Svo þekkt var hún,“ segir Stofan en Glenn var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem fór á sporbaug um jörðu. „Obama forseti sæmdi hana heiðursorðu í desember (Presidential Medal of Freedom). Hér er þessi kona, Katherine Johnson, sem tók þátt í að móta geimferðaáætlun Bandaríkjanna og fáir hafa heyrt getið. Eitt af því sem við höfum skoðað í bandaríska stjórnkerfinu er hvernig við getum komið á framfæri svona sögum af konum um heim allan sem hafa lagt mikið af mörkum til vísinda og tækni.“

Þegar viðtalinu lýkur segir Stofan að Ísland sé einn af sínum eftirlætisstöðum. „Þið hafið mögnuð eldfjöll og einstakt land,“ segir hún.

Konan sem stækkaði alheiminn

Vísindakonur hafa komið að mörgum merkum uppgötvunum um alheiminn sem halda munu nafni þeirra á loft um ókomna tíð.

Bandaríski eðlisfræðingurinn Lawrence Krauss fjallar í bókinni Alheimur úr engu um rannsóknir Henriettu Swan Leavitt, sem var árið 1908 ráðin sem „tölva“ við Stjörnustöð Harvard-háskóla.

„„Tölvurnar“ voru konur sem skrásettu birtustig stjarna á ljósmyndaplötum stjörnustöðvarinnar; konur máttu þá ekki nota sjónauka stöðvarinnar,“ skrifar Krauss og gerir grein fyrir þeirri uppgötvun Leavitt að ef hægt væri að ákvarða fjarlægðina til eins sefíta með þekkta birtulotu gætu mælingar á birtustigi annarra sefíta með svipaða lotu gert kleift að ákvarða fjarlægðina til þeirra.

Edwin Hubble hafi síðan notað mælingar sínar á sefítum og birtulotutengsl Leavitt til að sanna að sefítar í Andrómeduþokunni og nokkrum öðrum þokum væru alltof langt í burtu til að geta verið innan Vetrarbrautarinnar. Alheimurinn reyndist miklu stærri en talið var.

Krauss skrifar að Konunglega sænska vísindaakademían hafi búið sig undir að tilefna Leavitt til Nóbelsverðlauna árið 1924 þegar það fréttist að hún hefði látist úr krabbameini þremur árum áður. Hubble hafi hins vegar orðið heimsþekktur.

Fjallað er um framlag Katherine Johnson til geimferða NASA hér fyrir ofan.

Vera Rubin var líkt og Leavitt brautryðjandi í rannsóknum á alheiminum. Hún fékk ekki skólavist í Princeton-háskóla, þar sem skólinn tók þá ekki við konum í framhaldsnám í stjarnvísindum. Út frá rannsóknum hennar á hreyfingu á stjörnum og gasi í Vetrarbrautinni kom í ljós að þar hlyti að leynast meiri massi en vitað var um. Hulduefnið kom til sögunnar.

Stofan var skipuð yfirvísindamaður hjá NASA 2013.
Stofan var skipuð yfirvísindamaður hjá NASA 2013. Ljósmynd/NASA
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert