Labradorhundar gætu útskýrt offitu

Indverskir lögregluhundar af Labrador kyni
Indverskir lögregluhundar af Labrador kyni AFP

Það er innbyggt í eðli labrador hunda að borða of mikið en tegundin er ein gráðugasta hundategund heims. Labrador hundar eiga auðveldara með að verða of feitir heldur en aðrar tegundir og er það að hluta til vegna ákveðinnar genasamsetningar sem má finna í flestum hundum tegundarinnar. Þetta er meðal  þess sem kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna við háskólann í Cambridge.

Genið sem um ræðir er talið vera mikilvægt þegar að það kemur að því að stjórna hvernig heilinn túlkar hungur og seddutilfinningu. Talið er að rannsóknin muni hjálpa vísindamönnum við að skilja offitu mannfólks.

Að sögn Eleanor Raffan sem fer fyrir rannsókninni ber aðeins um fjórðungur Labradorhunda þetta tiltekna gen.

„Þó að offita sé afleiðing þess að borða meira en maður þarf og brennir má sjá að það er innbyggð líffræði bakvið hvöt okkar til þess að borða,“ sagði Raffan.

Offituvandamál hunda er talið tengjast offitufaraldrinum sem herjar á mannfólkið í kjölfar lífstílsákvarðana eins og skorti á hreyfingu og kaloríuríks matarræðis. Þá er ljóst að gen spila líka inn í.

34-59% hunda í ríkum löndum eru nú of þungir. Þá er það algengast hjá Labardor hundum að vera of þungir og eru þeir uppteknari af mat en aðrar hundategundir.

Rannsakendur leituðu eftir „offitugeninu“ í rúmlega 300 Labrador hundum og kom í ljós að stökkbreyting á geninu POMC sem er tengd við þyngd, offitu og matarlyst meðal Labradorhunda, fannst í flestum þeirra. Þeir hundar sem voru með genið voru að meðaltali 2 kílóum þyngri en hinir.

Þá er talið að POMC genið getið valdið offitu meðal barna.

„Við höfum komist að því að sumir Labradorhundar verða feitir því þeir eru með úrfellingu á geni í heila þeirra,“ sagði Giles Yeo, erfðafræðingur við háskólann í Cambridge. „Þetta gen spilar mikilvægt hlutverk í að meta hversu mikla fitu þeir eru með í líkamanum og þar af leiðandi vita sumir Labradorhundar ekki hversu mikla fitu þeir hafa og halda því áfram að borða.“

Ef marka má rannsóknir hafa um 100 gen áhrif á þyngd mannfólks. Flest genin starfa eðlilega í heilanum og stuðla að eðlilegri hegðun þegar það kemur að mat. Með því að nota hunda til þess að skoða offitu er hægt að fá betri skilning á líffræðinni á bakvið hana.  

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert