Efnaslóðar úr lausu lofti gripnir

Flugslóðar frá Airbuis A340-þotu. Þeir myndast þegar vatnsgufa í loftinu …
Flugslóðar frá Airbuis A340-þotu. Þeir myndast þegar vatnsgufa í loftinu þéttist í kringum agnir úr útblæstrinum og myndar ísagnir. ljósmynd/Joe Thomissen

Fyrir þeim sem sjá samsæri í hverju horni er ekkert eins einfalt og það lítur út fyrir að vera. Þannig er til nokkur fjöldi manna sem telur að flugslóðar þotna séu í raun efni sem óprúttnir aðilar dæla út í andrúmsloftið í annarlegum tilgangi. Nú hefur hópur vísindamanna eytt tíma í að hrekja þær kenningar.

Eins lengi og þotuhreyflar hafa knúið flugvélar hefur verið vitað að þeir skilja eftir sig hvítan slóða þegar vatnsgufa í loftinu þéttist í kringum agnir úr útblæstrinum og myndar ískristalla. Þessir slóðar hafa verið nefndir flugslóðar á íslensku (e. contrails).

Samsæriskenningasmiðir sjá hins vegar flugslóðana sem ískyggilegt ráðabrugg stjórnvalda eða hersins. Slóðarnir séu í raun efnaslóðar (e. chemtrails) sem myndast þegar flugvélarnar eru notaðar til þess að dæla efnum vísvitandi út í andrúmsloftið, annaðhvort til þess að breyta veðrinu eða sem einhvers konar efnavopn.

76 af 77 aldrei séð neinar vísbendingar um efnaslóða

Þrátt fyrir að þessar kenningar hljómi framandlega tóku 77 lofthjúpsfræðingar og jarðvísindamenn þátt í könnun sem hópur vísindamanna við Kaliforníuháskóla og Near Zero-stofnunina gerðu og Space.com segir frá. Þar voru sérfræðingarnir spurðir að því hvort þeir hefðu fundið einhverjar vísbendingar um að verið væri að dæla efnum út í loftið í stórum stíl.

Skemmst er frá því að segja að 76 þeirra höfðu aldrei fundið neinar slíkar vísbendingar. Þegar þeim voru sýnd „sönnunargögn“ sem efnaslóðasinnar hafa lagt fram eins og strontíum, baríum og ál sem hefur fundist í vatni, jarðvegi og snjó sögðu sérfræðingarnir að hægt væri að útskýra það með öðrum hætti, þar á meðal með vel þekktri eðlisfræði og efnafræði sem tengdist flugslóðum og ögnum í andrúmsloftinu.

Eini vísindamaðurinn sem svaraði ekki á sömu leið sagðist hafa fundið óvenjumikið magn baríums í andrúmslofti á afskekktu svæði þar sem magn efnisins í jarðvegi var lítið. Hann vildi ekki útiloka algerlega möguleikann á að efninu hefði verið dælt yfir svæðið úr lofti en sagði þó ekki að það væri líkleg skýring.

Ólíklegt er þó að vitnisburður vísindamannanna um að ekkert bendi til samsæris stjórnvalda, heryfirvalda, flugfélaga eða annarra um að dæla eitri út í loftið fái samsæriskenningarsinnanna ofan af ranghugmyndum sínum.

„Efnaslóðasamsæriskenningin fylgir upphafi og vexti alnetsins frekar vel en þar er enn hægt að finna fjölda vefsíðna sem auglýsa þessa tilteknu tegund gervivísinda,“ segir Steven Davis, meðhöfundur að rannsókninni hjá Kaliforníuháskóla en grein um hana birtist í Environmental Research Letters.

Frétt Space.com af efnaslóðakönnuninni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka