Fundu tengsl milli ofþyngdar og átta krabbameina til viðbótar

Nú hefur komið í ljós að margar tegundir krabbameina eru …
Nú hefur komið í ljós að margar tegundir krabbameina eru algengari meðal einstaklinga í ofþyngd en annarra. AFP

Vísindamenn hafa komist að því að yfirþyngd eykur líkurnar á átta krabbameinum sem höfðu ekki áður verið tengd við aukakílóin. Um er að ræða niðurstöður samantektar yfir 1.000 rannsókna á tengslum yfirþyngdar og krabbameins, en þær hafa verið birtar í New England Journal of Medicine.

Árið 2002 gaf Alþjóðaheilbrigðisstofnunin það út að yfirþyngd gæti aukið líkurnar á krabbameini í ristli, vélinda, brjóstum og legi. Nú hafa bæst í hópinn maginn, lifrin, gallblaðran, brisið, eggjastokkarnir og skjaldkirtillinn, auk þess sem yfirþyngd er talin auka líkurnar á ákveðnum heila- og blóðkrabbameinum.

Krabbamein koma oftsinnis upp án skýringa en tilurð þeirra má stundum rekja til vírusa, mengunarefna, erfða og geilsunar. Þá eru þeir sem reykja eða eru í yfirþyngd líklegri en aðrir til að fá krabbamein.

Um 9% krabbameina meðal kvenna í Norður-Ameríku, Evrópu og Mið-Austurlöndum eru talin tengjast ofþyngd, samkvæmt rannsókninni. Viðbótarfita getur stuðlað að bólgum og leitt til offramleiðslu estrógens, testosteróns og insúlíns, sem öll geta ýtt undir krabbameinsvöxt.

Áætlað er að um 640 milljónir fullorðinna og 110 milljónir barna í heiminum þjáist af offitu.

Vísindamennirnir segja niðurstöður rannsóknarinnar kalla á vitundarvakningu, kominn sé tími til að fólk taki heilsu sína og mataræði alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert