Aukið ónæmi sveppa áhyggjuefni

Aspergillus-sveppasýking.
Aspergillus-sveppasýking. Wikipedia/Nephron

Vísindamenn hafa varað við því að sveppasýkingar eru að verða ónæmar gegn mörgum þeim lyfjum sem nú eru notuð gegn þeim. Meira en milljón manns deyja árlega af völdum sveppasýkinga, þar af 7.000 í Bretlandi, en dauðsföllum mun líklega fjölga ef fer sem horfir.

Rannsakendur segja að útbreidd notkun sveppaeyðandi efna í matvælaframleiðslu sé ein af helstu ástæðum þess að ónæmi er að aukast. Þróunin er svipuð og hjá bakteríum, sem eru í síauknum mæli að verða ónæmar gegn sýklalyfjum.

Adilia Warris, einn af framkvæmdastjórum Centre for Medical Mycology við Aberdeen-háskóla, segir margt líkt með ónæmi baktería og sveppa, en segir þróunina hvað varðar hið síðarnefnda sérstakt áhyggjuefni.

„Það eru fleiri en 20 flokkar sýkladrepandi efna. Til samanburðar eru aðeins fjórir flokkar sveppadrepandi efna. Vopnabúrið sem við búum yfir til að eiga við banvæna sveppi er mun minna en það sem við eigum til að fást við bakteríur.“

Warris segir mannfólkið ekki mega við því að missa þau fáu sveppalyf sem til séu, ekki síst þar sem litlu fjármagni sé varið til rannsókna á sveppum og sveppasýkingum.

Sveppir valda alls kyns lítilvægum óþægindum á borð við flösu, þrusku og fótasvepp. Sveppasýkingar geta hins vegar einnig verið banvænar, t.d. geta einstaklingar með veikt ónæmiskerfi dáið af völdum aspergillus og candida-sýkinga.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert