Gæti breytt áformum fyrir Evrópu

Ísilagt yfirborð tunglsins Evrópu sem gengur á braut um Júpíter.
Ísilagt yfirborð tunglsins Evrópu sem gengur á braut um Júpíter. NASA/JPL/University of Arizona/University of Colorado

Frekari vísbendingar um að háir strókar vatnsgufu gjósi upp úr ísilögðu yfirborði tunglsins Evrópu við Júpíter hafa fundist. Verði uppgötvunin staðfest hefði það mikla þýðingu fyrir framtíðarkönnun Evrópu sem er talinn líklegasti staðurinn til að geta hýst líf í sólkerfinu utan jarðarinnar.

Merki um strókana fundust fyrst árið 2012 en tilvist þeirra hefur enn ekki verið staðfest svo hafið sé yfir allan vafa. Við athuganirnar nú notuðu vísindamenn Hubble-geimsjónaukann til að fylgjast með Evrópu þegar hún gekk fyrir Júpíter. Í þrígang fundu þeir verksummerki um að strókar vatnsgufu stæðu upp af yfirborðinu.

Frétt mbl.is: Boða „óvænta“ uppgötvun á Evrópu

Niðurstöðurnar eru ekki nógu afgerandi til að hægt sé að slá því föstu að strókarnir séu raunverulegir en þær renna frekari stoðum undir tilvist þeirra. Evrópa yrði þá annað tunglið í sólkerfinu sem vitað er um að hafi slíka virkni. Cassini-geimfarið uppgötvaði vatnsgufustróka á tunglinu Enkeladusi við Satúrnus árið 2005.

Frétt Stjörnufræðivefsins um vatnsstrókana

Reynslan á jörðinni kveikti vonir um líf

Evrópa er líklega sá heimur í sólkerfinu sem vekur hvað mestar vonir um að líf gæti mögulega þrifist á. Á yfirborðinu virkar þetta nístingskalda ístungl ekki lífvænlegur staður. Uppgötvanir síðustu ára og áratuga hafa hins vegar gerbreytt sýn vísindamanna á tunglið.

Fyrst komust menn að því að undir margra kílómetra þykkri ísskorpunni sem myndar yfirborð Evrópu er mikið haf fljótandi vatns, jafnvel hundrað kílómetra djúpt. Sterkir flóðkraftar Júpíters valda því að hiti myndast innan í Evrópu sem gerir þetta mögulegt.

Þegar rannsóknir á jörðinni leiddu í ljós að lífið væri mun harðgerara en áður hafði verið talið byrjuðu vísindamenn að sjá möguleikana á Evrópu. Djúpt í hyldýpi hafsins á jörðinni fundust nefnilega örverur, fjarri öllu sólarljósi sem gæti séð þeim fyrir orku. Þær nærðust hins vegar á steinefnum frá hverastrýtum á hafsbotninum sem sáum þeim fyrir efnaorku.

Hugmyndin vaknaði að djúpt í myrku neðanjarðarhafi Evrópu gæti líf hafa kviknað við sambærilegar aðstæður.

Hugsanlegir vatnsstrókar á myndum Hubble af Evrópu.
Hugsanlegir vatnsstrókar á myndum Hubble af Evrópu. NASA

Gæti breytt áætlunum leiðangurs

Uppgötvun stróka vatnsgufu á Evrópu hefur beina þýðingu fyrir rannsóknir á neðanjarðarhafinu fyrir neðan ísinn og mögulegu lífi sem þar gæti þrifist.

Til þess að komast að hafinu þyrfti geimfar að lenda á yfirborði Evrópu og bora sig svo niður fleiri kílómetra af ís til þess að komast að hafinu. Jafnvel þó að það tækist væri eftir meiriháttar áskorun að finna lausn því hvernig könnunarfarið gæti sent nokkur gögn til baka.

Gjósi hins vegar vatnsgufa beint úr hafinu upp í gegnum sprungur í ísskorpu Evrópu myndi það gerbreyta möguleikum manna á að rannsaka hafið. Hægt væri að rannsaka strókana frá braut um Evrópu eða með því að lenda þar sem strókavirknin á sér stað í stað þess að þurfa að bora í gegnum ísinn. Örverur, séu þær til staðar, gætu þeyst upp úr hafinu með strókunum og gætu menn fundið merki um þær með þessum hætti.

Í fréttatilkynningu NASA vegna uppgötvunarinnar í dag kemur fram að hún geti haft áhrif á áætlanagerð stofnunarinnar fyrir fyrirhugaðan leiðangur til Evrópu á næstu árum.

Frétt Stjörnufræðivefsins af upprunalegu uppgötvun stróka á Evrópu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert