Ógleðin ekki alslæm

AFP

Fylgni hefur fundist á milli morgunógleði og lægri áhættu á fósturmissi. Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem birtar voru í Journal of the American Medical Association, benda til þess að ógleði kvenna og uppköst snemma á meðgöngu gætu haft verndandi áhrif á fóstrið.

Á milli 50-80% kvenna segjast hafa upplifað ógleði eða uppköst á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar. Ástandið er oft kallað morgunógleði, jafnvel þótt konurnar finni fyrir einkennum jafn kvölds sem morgna.

797 konur tóku þátt í rannsókninni, þar sem í ljós kom að fylgni var milli ógleði og ógleði með uppköstum og 50-75% minni áhættu á fósturmissi.

Konurnar höfðu allar upplifað fósturmissi einu sinni eða tvisvar áður en þær skrásettu líðan sína í dagbók og þunganir voru staðfestar með þvagprufu.

Sumir sérfræðingar telja að ógleði leiði til heilbrigðari meðgöngu af því að konan er þá líklegri til að borða minna og þá minnkar hættan á því að fóstrið komist í snertingu við eiturefni. Minna át virðist einnig draga úr insúlíni og hafa vaxtaraukandi áhrif á fylgjuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert