Drekka nánast jafn mikið og karlar

Auðvelt aðgengi og markaðssetning sem höfðar til ungra kvenna eru …
Auðvelt aðgengi og markaðssetning sem höfðar til ungra kvenna eru meðal skýringa sem eru gefnar á auknum áfengisvanda kvenna. AFP

Konur hafa náð körlum á flestum vígstöðvum og er áfengisneysla þar ekki undanskilin, samkvæmt nýrri alþjóðlegri rannsókn á áfengisneyslu fólks sem sýnir að bilið á milli kynjanna þegar kemur að áfengisneyslu er nánast horfið.

Í rannsókninni voru drykkjuvenjur fjögurra milljóna manna, sem fæddir eru á tímabilinu 1891 til 2001, rannsakaðar. Áður voru karlar mun líklegri til þess að drekka áfengi og um leið glíma við heilsufarsvandamál vegna áfengisneyslunnar. En kynbundinn munur þegar kemur að áfengisneyslu er nánast horfinn, samkvæmt BMJ Open rannsókninni sem fjallað er um á vef BBC.

Snemma á tuttugustu öldinni voru karlar tvöfalt líklegri til þess að neyta áfengis og þrefalt líklegra að áfengisneysla þeirra væri vandamál. Eins voru 3,6 sinnum meiri líkur á að þeir glímdu við heilsubrest vegna áfengisneyslu heldur en konur, svo sem skorpulifur.

Á undanförnum áratugum hefur þetta breyst og er nú orðið lítill munur milli kynjanna þegar kemur að neyslu áfengis, áfengissýki og sjúkdóma vegna áfengisneyslu.

Rannsóknin var unnin við háskóla í Ástralíu en einkum var horft til íbúa Norður-Ameríku og Evrópu. Niðurstaða þeirra er sú að áfengisneysla og áfengissýki var áður vandamál karla en er ekki svo í dag heldur bendir allt til þess að ungar konur séu að verða líklegar til þess að eiga við vandamál tengd áfengisneyslu að stríða.

Mark Petticrew, prófessor við London School of Hygiene and Tropical Medicine, segir í samtali við BBC að hlutverk kynjanna sé að breytast og þar sé áfengisvandamálið ekki undanskilið.

Þar skipti auðveldara aðgengi fólks að áfengi miklu máli og oft miðist markaðssetning áfengis í dag að konum, einkum og sér í lagi ungum konum.

Hann segir mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn veiti almenningi, bæði konum og körlum, aðstoð við að skilja hættuna sem fylgi áfengisneyslu og eins veiti fólki aðstoð við að draga úr neyslu áfengra drykkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert