„Ekki búið að finna líf“

Hugmynd listamanns að því hvernig rauði dvergurinn lítur út frá …
Hugmynd listamanns að því hvernig rauði dvergurinn lítur út frá einni af reikistjörnunum í TRAPPIST-1 sólkerfinu. Mynd/ESO-M. Kornmesser

„Ég má ekki segja of mikið […] Ég er tengiliður ESO við Ísland og ESO er hluti af þessari uppgötvun svo ég er eiginlega bundinn trúnaði,“ segir Sævar Helgi Bragason, spurður um umtalsefni blaðamannafundar sem Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) heldur á morgun.

Sævar Helgi hvetur fólk þó til að stilla eftirvæntingum í hóf. „Þetta er merkileg uppgötvun en það er ekki búið að finna líf.“

Mælendur gefa vísbendingu

Á heimasíðu NASA má þó sjá hverjir taka þátt í kynningunni en þar á meðal er belgíski stjörnufræðingurinn Michael Gillon.

Í maí í fyrra var sagt frá því að þrjár reikistjörnur hefðu fundist á braut umhverfis rauðan dverg í aðeins 40 ljósára fjarlægð frá jörðu og var dvergstjarnan kölluð TRAPPIST-1 eftir belgíska sjónaukanum sem notaður var við uppgötvunina.  Rauði dvergurinn hefur verið kallaður TRAPPIST-1 eftir belgíska stjörnukíkinum sem notaður var við uppgötvun sólkerfisins.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. mbl.is/Golli

Gillon leiddi teymið sem uppgötvaði stjörnurnar og vegna þátttöku hans í blaðamannafundinum hafa einhverjir þegar getið sér til um að efni hans verði nýjar uppgötvanir í TRAPPIST-1 sólkerfinu.

Í fréttatilkynningu frá evrópsku stjörnustöðinni á Suðurhveli (ESO) á síðasta ári kom fram að reikistjörnurnar þrjár væru taldar „lífvænlegar“ en að rauði dvergurinn væri bæði rauðari og kaldari en sólin okkar.

„Jafnvel þó reikistjörnurnar séu á braut mjög nálægt dvergstjörnunni fá innri pláneturnar tvær aðeins fjórum og tvisvar sinnum meiri geislun en jörðin fær frá sólinni, þar sem að dvergstjarnan þeirra er mun daufari en sólin,“ sagði í tilkynningunni.

Blaðamannafundurinn hefst á morgun klukkan 18 að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með honum á NASA TV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert