Brjóstagjöf hefur lítil áhrif til lengri tíma

AFP

Sýnt hefur verið fram á að brjóstagjöf hjálpar ungbörnum við að berjast gegn sýkingum og fyrirburum að vaxa og dafna en minna hefur verið vitað um langtímaáhrif. Ný rannsókn virðist hins vegar benda til þess að brjóstagjöf hafi lítil áhrif á vitsmunaþroska eða hegðun til lengri tíma litið.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í tímaritinu Pediatrics en hún tók til 7.478 írskra barna sem fæddust eftir fulla meðgöngu. Fylgst var með börnunum frá 9 mánaða aldri en staða þeirra var metin við þriggja og fimm ára aldur.

Þegar börnin voru þriggja ára voru foreldrarnir beðnir um að fylla út spurningalista um orðaforða og getu barnanna til að leysa vandamál. Þá voru foreldrar og kennarar spurðir sömu spurninga þegar börnin voru fimm ára.

Rannsakendurnir komust að því að þau börn sem voru á brjósti sex mánuði eða lengur voru síður líkleg til að vera ofvirk og sýndu aukna getu til að leysa vandamál við þriggja ára aldur en munurinn milli hópanna var lítill sem enginn við fimm ára aldur.

CNN hefur eftir dr. Brooke Orosz, prófessor í stærðfræði við Essex County College og ráðgjafa Fed Is Best, að svarið við spurningunni um hvort brjóstagjöf sé betri en ekki sé já.

„Erfiða spurningin er: Er það brjóstamjólk sem eflir heilastarfsemina eða er það að vaxa upp hjá foreldrum sem eru betur menntaðir og hafa hærri tekjur það sem gerir herslumuninn?“

Ítarlega frétt um málið má finna hjá CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert