Yfir 500 mislingasmit

AFP

Yfir 500 manns greindust með mislinga í Evrópu í janúar, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO. Stofnunin lýsir yfir áhyggjum af fækkun bólusetninga en hlutfall bólusetninga er komið undir 95%.

Dr. Zsuzsanna Jakab, svæðisstjóri WHO í Evrópu, segir að undanfarin tvö ár hafi dregið jafnt og þétt úr bólusetningum í álfunni sem skýri fjölgun mislingasmits í Evrópu.

Hann segir að ef fram fer sem horfir sé ekkert ríki Evrópu undanskilið. Mislingafaraldur verði viðvarandi í álfunni þangað til öll ríki hennar ná 95% markinu sem er nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir að faraldur geisi.

Alls voru greind 559 mislingatilvik í Evrópu í janúar, 474 þeirra voru í sjö ríkjum þar sem mislingar eru landlægir. Þau eru: Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Pólland, Rúmenía, Sviss og Úkraína. Fyrstu tölur benda til þess að í febrúar hafi mislingatilfellum fjölgað verulega. 

Fyrr í mánuðinum var staðfest mislingasmit í níu mánaða gömlu barni á Íslandi. Á föstudaginn höfðu ekki fleiri einstaklingar verið greindir með mislinga í kjölfar veikinda barnsins sem greindist 20. mars á Barnaspítala Hringsins. Barnið hefur dvalist heima og ekki fengið alvarleg einkenni.

„Um 200 einstaklingar höfðu verið í misnánum samskiptum við barnið meðan á veikindum stóð. Starfsmenn Landspítala, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heilsugæslu Akureyrar og nokkurra annarra heilsugæslustöðva á landinu settu sig í samband við svo til alla þessa einstaklinga til að upplýsa þá um stöðuna og leiðbeina um áframhaldandi eftirlit. Stærsti hluti þessara einstaklinga var bólusettur en óbólusettum einstaklingum var boðin bólusetning sem allflestir þáðu.

Ekki er ólíklegt að einhverjir einstkalingar muni greinast á næstunni með mislinga en vegna þess hve stór hópur útsettra einstaklinga var þegar bólusettur og vegna hinna snöru viðbragða Landspítalans og heilsugæslunnar er ekki búist við útbreiddum faraldri,“ segir á vef Landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert