Maðurinn upprunninn í Evrópu?

Teikning listamanns af Graecopithecus freybergi og steingervingarnir tveir.
Teikning listamanns af Graecopithecus freybergi og steingervingarnir tveir. Ljósmynd/Háskólinn í Toronto

Hugsanlega þarf að endurrita þróunarsögu mannkynsins eftir að vísindamenn komust að þeirri niðurstöðu að maðurinn eigi uppruna sinn í Evrópu en ekki Afríku eins og áður var talið.

Flestir sérfræðingar á þessu sviði telja eins og staðan er í dag að maðurinn og apar hafi þróast út frá sameiginlegum forföður fyrir um sjö milljónum ára. Þar hafi forfeður mannsins haldið til næstu fimm milljónir ára á eftir áður en þeir hafi dreifst víðar um heiminn.

Hins vegar benda tveir steingervingar til þess að fyrir um 7,2 milljónum ára hafi verið uppi tegund sem hafi líkst öpum en verið með tennur líkar því sem menn hafa í dag. Hefur hún fengið heitið Graecopithecus freybergi.

Steingervingarnir fundust annars vegar í Búlgaríu og hins vegar í Grikklandi. Fundurinn þykir benda til þess að forfeður mannsins hafi þegar verið byrjaðir að þróast í Evrópu um 200 þúsund árum fyrr en elstu heimildir sem fundist hafa í Afríku.

Vísindamennirnir sem fundu steingervingana telja að uppgötvunin breyti algerlega hugmyndum um upphaf mannkynsins og staðsetji það í nágrenni Miðjarðarhafsins. 

„Upp að vissu marki er þetta nýuppgötvaður týndur hlekkur. En týndir hlekkir verða alltaf til vegna þess að þróun er endalaus keðja af áframhaldandi tegundum,“ er haft eftir einum af vísindamönnunum, Nikolai Spassov frá Vísindaháskóla Búlgaríu.

Breska dagblaðið Daily Telegraph fjallar um málið á fréttavef sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka