Nörd með áhuga á vélmennum

Atli Fannar útbjó stýrikerfið fyrir vélmenni.
Atli Fannar útbjó stýrikerfið fyrir vélmenni. Ljósmynd/Skjáskot

Atli Fannar Skúlason kynnti lokaverkefni sitt í mekatróník hátæknifræði við Háskóla Íslands og Keili síðastliðinn þriðjudag. Verkefnið snerist um að hanna stýrikerfi fyrir vélmenni, eða eins konar vélþræl, en grind fyrir það hafði þegar verið hönnuð.

Skólinn bauð Atla Fannari að taka að sér verkefnið og gekk það mjög vel að hans sögn. Í byrjun var lagt upp með að hafa þrjá keyrsluhama á vélmenninu. Einn fyrir fjarstýringu til að geta stýrt því, annar sem keyrir um sjálfur án þess að klessa á hluti og sá þriðji til að geta elt notandann. Síðasti hamurinn náðist ekki innan tímarammans en hinir tveir virkuðu báðir.

Atli Fannar Skúlason kynnti lokaverkefni sitt á þriðjudaginn.
Atli Fannar Skúlason kynnti lokaverkefni sitt á þriðjudaginn. Ljósmynd/Aðsend

Atli Fannar, sem hafði tíu vikur til að hanna og smíða stýrikerfið, kveðst ávallt hafa verið áhugamaður um vélmenni. „Maður er töluvert nörd. Allt sem viðkemur raftækjum og róbótum er þar ofarlega. Þeir eru nýjasta nýtt og það helsta sem er í gangi í tækniheiminum er þróun á nýjum róbótum og kerfum fyrir þá,“ segir hann.

Spurður hvort R2D2 úr Star Wars-myndunum hafi verið fyrirmynd vélmennisins í verkefninu segist hann ekki vita það þar sem hann hafi ekki hannað vélmennið sjálft. Líklega hafi hönnuðurinn samt haft R2D2 til hliðsjónar.

Vélmennið verður áfram í skólanum fyrir næstu nemendur til að halda áfram að þróa það og betrumbæta. Sjálfur hyggur Atli Fannar á meistaranám í megatronics í Danmörku, sem er blanda af rafmagnsverkfræði og vélaverkfræði þar sem sjálfvirkni kemur við sögu. Segir hann stefnuna tekna á starf tengt einhvers konar þróun vélmenna og þróun ígreyptra kerfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert