NASA þróar hljóðfráa farþegaflugvél

NASA áætlar að vélin líti svona út en bandaríski flugvélaframleiðandinn …
NASA áætlar að vélin líti svona út en bandaríski flugvélaframleiðandinn Lockheed Martin vinnur að hönnun flugvélarinnar ásamt stofnuninni. Mynd/NASA

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA (e. National Aeronautics and Space Administration), er að þróa hljóðfráa farþegaþotu sem mun draga verulega úr flugtíma og takmarka hjóðmengun. Flugtími gæti styst um allt að helming. Verkefnið er unnið í samvinnu við bandaríska flugvélaframleiðandann Lockheed Martin. Fréttamiðilinn Bloomberg greinir frá þessu. 

Gæti stytt flugtíma um helming

Fram að þessu hafa hljóðfráar vélar verið bannaðar vegna hljóðmengunar og því hefur hámarkshraði flugvéla verið takmarkaður við rúma 1.000 km/klst. Hönnuðir þessarar vélar stefna að því að hún verði með hljóðmörk á bilinu 60 til 65 desíbel (dBa), sem er svipað hljóðstyrk lúxusbíls sem keyrir á þjóðvegi.

Vélin mun því geta flogið mun hraðar og mun jafnvel geta stytt flugtíma um allt að helming. Til dæmis muni sex tíma flug milli Los Angeles og New York styttast niður í þrjá tíma. Geimferðastofnunin vann hönnun vélarinnar í samstarfi við bandaríska flugvélaframleiðandann Lockheed Martin. 

Hér má sjá áætlað útlit vélarinnar.
Hér má sjá áætlað útlit vélarinnar. Mynd/NASA

Hljóðmengun – eina hindrun hljóðfrárra véla

Þessi vél verður ekki fyrst sinnar gerðar en frægust hljóðfrárra véla var líklega hin bresk-franska Concorde frá árinu 1976; farþegaflugvél með hljóðstyrk upp á 90 desíbel. Sú gat flogið á allt að 2.000 km/klst., tvöfalt hraðar en nútímaflugvél í dag.

Notkun Concorde var hætt árið 2003 vegna hljóðmengunar en við flugtak og lendingu bárust oft hundruð kvartana. Þá var kvartað meðal annars undan brotnu gleri, sprungnu gifsi og óðum húsdýrum. Síðan þá hafa hljóðfráar þotur verið bannaðar af Flugumferðarstjórn Bandaríkjanna (e. Federal Aviation Administration) allt frá árinu 1973.

Framleiða vélina sem farþegaflugvél

NASA-verkefnið miðar að því að framleiða farþegaflugvél sem gæti haft viðskiptalegar forsendur. Stofnunin stefnir að því að deila áætlunum sínum með framleiðendum flugvélabúnaðar á borð við Lockheed Martin, General Dynamics og Boeing en einnig smærri fyrirtækjum sem vinna á sama markaði, þar á meðal fyrirtækinu Boom Supersonic sem staðsett er í Colorado í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í miðlinum Tech Crunch.

Bloomberg segir að NASA muni byrja að taka við tilboðum frá flugvélaframleiðendum í ágúst til að byggja upp frumgerð vélarinnar. Stofnunin mun leggja verkefninu til 390 milljónir Bandaríkjadala, um 41 milljarð króna, á fimm árum til að smíða vélina og prófa hana yfir þéttbýlum svæðum árið 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert