Ég átti seinnipart í Elliðaánum á sunnudaginn og renndi í ánna ásamt betri helmingnum þar sem planið vað að eiga góða stund við ána og veiða.
Ég bjó nálægt Elliðaánum í æsku og aðeins á fullorðinsárum og er búinn að ganga eftir bökkum hennar á öllum tímum árs, furðu mikið á sumrin satt að segja, og þekki hana vel í þeim skilningi að ég veit hvar laxinn liggur eftir skilyrðum í ánni. Þegar við rennum niður í veiðihús er 17 stiga hiti, heiðskýrt og óveiðilegt eftir því. En það breytti okkur engu því ég vissi nákvæmlega hvert við ætluðum.
Eftir að dregið hafði verið um svæði rennum við frá veiðihúsi og upp að Kerlingaflúðum. Við fengum svæði 1, Foss og Breiðu sem byrjunarstað, en það er bara engin fiskur að ráði að ganga inn svo það var bara tímasóun að ætla að standa þar og við förum þess vegna á frjálsa svæðið. Þegar við komum að Kerlingaflúðum óðum við yfir ánna og læddumst á hnjánum að veiðistaðnum, þetta er lykilatriði, ekki vaða að stöðunum með látum og vera svo hissa að ekkert gerist. Þarna er smá hola sem lax liggur oft í og það tók nokkur rennsli til að finna lax sem tók og eftir smá stund lá 4 punda nýgengin og lúsug hrygna í grasinu.
Þessum var landað örugglega og þá var þessi hola hvíld og farið í næstu, ekki hanga á sömu stöðunum þó að þú sjáir fisk. Ef lætin eru mikil þegar þú ert að landa er fiskurinn yfirleitt styggur og var um sig eftir lætin, færðu þig! Ég er að læðast í skugganum af trjánum og sé lax á staðnum sem ég ætlaði mér að kíkja í. Renni á hann maðki og bang! Hann neglir maðkinn. Þarna var klukkan orðinn 15:30 og kvótinn kominn. Það sem eftir lifði dags tókum við því rólaga og kíktum í nokkra staði, fengum heimsókn á bakkann en bættum engum öðrum löxum við.
Við vorum fyrst í hús og farin áður en aðrir veiðimenn mættu en einhverjir voru búnir að hringja sig inn laxlausir. Við sáum aðra veiðifélaga taka einn lax á Hrauninu en það var allt og sumt. Fyrir ykkur sem eruð að fara í Elliðaárnar langar mig að benda ykkur á að læðast að stöðunum. Ekki fara í staði sem er búið að berja mikið á, reyndu staðina sem engin fer á. Notaðu minnstu flugurnar í boxinu, prófaðu andstreymisveiði og ekki gleyma að kasta aðeins í Fljótið, það var einu staðurinn þar sem við sáum mikið af laxi og renndu maðki í holurnar frá stíflu og að Ullarfossi. Gangi þér vel.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |