Veiðivötn eru veiðiparadís sem margir heimsækja ár eftir ár enda einstakt veiðisvæði. Veiðivötn eru þekkt fyrir stóra ísaldarurriða og koma reglulega 10 punda fiskar á land. Árið 2012 veiddist meira að segja einn sem var 16,4 pund. Í sumar hefur borið á því að menn telji veiðina vera minni en undanfarið og margir velt fyrir sér ástæðu þess.
Í fyrsta lagi er veðurfar búið að vera mjög lélegt til veiða á hálendinu í sumar. Mikill kuldi hefur verið, úrkoma og í fyrstu viku júlí mánaðar mældist frost í Veiðivötnum. Flestum ber nú saman um það að fiskur hugsar sér ekki mikið til hreyfings þegar lofthiti og þar af leiðandi vatnshiti er mjög lágur.
Í öðru lagi hefur veiðin undanfarin sjö ár verið með ólíkindum. Meðalveiði á árunum 2006-2012 var 22.500 fiskar miðað við að á árunum 2000-2004 var meðalveiðin 11.600 fiskar. Þetta er ekki lítil aukning í meðalveiði á ekki lengra tímabili eða meira en 93% aukning. Ef skoðuð er aukning í urriðaveiði ein og sér þá var hún 42% milli þessara tímabila.
Þó sleppt sé á hverju ári í mörg vötn á svæðinu þá tekur það ársgömul seiði milli 3 og 4 ár að ná veiðanlegri stærð og yngri seiðin ári lengur. Því má draga þá ályktun að þessi mikla veiði undanfarin sjö ár hafi einhver áhrif á aflabrögð komandi ára.
Í þriðja lagi er bleikjan á svæðinu alltaf að vera stærri hluti af veiðinni og það sem af er tímabilinu hafa veiðst 1225 fleiri bleikjur en urriðar í Veiðivötnum (í lok 6. viku). Eins og kom fram áður þá var rúmlega helmingur aukinnar veiði í vötnunum bleikja á milli tímabilanna 2000-2004 og 2006-2012. Veiðimálastofnun hefur sagt að urriðin sé alltaf í meiri og meiri samkeppni við bleikjuna í þeim vötnum sem þau deila búsvæðum og á hann t.d. erfitt með að halda aftur af henni í Snjóölduvatni þar sem urriða var sleppt sérstaklega til að stoppa fjölgun á bleikju.
Fyrir nokkrum dögum kom að auki upp sú umræða um að misbrestur í sleppingum sé orsökin að þessari minni urriðaveiði. Við fengum upplýsingar hjá Veiðimálastofnun um að árið 2010 hafi orðið misbrestur í eldisstöð sem olli því að ekki var hægt að sleppa ársgömlum seiðum í Litlasjó, Grænavatn, Snjóölduvatn og Ónýtavatn svo dæmi séu tekin. Misbresturinn hafi samt ekki verið vegna sýkingar eins og sumir hafa haldið fram heldur vegna annarra orsaka. Seiðum á fyrsta ári hafi samt sem áður verið sleppt í þessi vötn og fleiri það árið. Þetta var hinsvegar eina árið sem misbrestur hefur átt sér stað síðan 1993. Frá því ári hefur ársgömlum seiðum og seiðum á fyrsta ári verið sleppt í þau vötn í Veiðivötnum þar sem endurnýjun á veiðistofni var ekki talin nægilega mikil til að sjálfbær nýting gæti átt sér stað.
Við vonum því að veðurguðirnir fari að blása góðum áttum og hlýindum inn til Veiðivatna og vonum að allir þeir sem vötnin heimsækja njóti veiðiferðarinnar hver sá sem aflinn verður.
Heimildir: Örn Óskarsson, veiðiverðir í Veiðivötnum og Veiðimálastofnun
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |