Burt með 1,5 kíló á viku

Nú þýðir lítið annað en að hræra saman einhverju hollu …
Nú þýðir lítið annað en að hræra saman einhverju hollu næstu daga og koma kroppnum á rétta braut.

Eflaust eru einhverjir enn að burðast með hátíðarþrota og kíló sem viðast ætla að leka seint og illa af. Fólk er gjarnan fast í viðjum vanans og erfitt er að koma sér af stað. Það þekki ég vel sjálf en frá því að ég hóf störf á Matarvef mbl.is í september,  hef ég þyngst um 4 kíló sem er alls ekki í boði. Það má vel smakka allan mat og elda eitthvað annað en gulrætur en þetta gengur ekki lengur. Í mínu tilviki hef ég lítið getað hreyft mig vegna anna og oftar en ekki gripið eitthvað í dagsins önn sem ekki er góð næring. Nú skal vanda valið við hvað er sett í kroppinn!

Með tveimur breytingum hef ég losað mig við 1,5 kíló á síðustu viku. Vissulega var eitthvað þroti og engin breyting virkar eins á alla en engu að síður hafa þessar tvær breytingar ítrekað aðstoðað mig við að núllstilla kroppinn í þeirri meiningu að losna við sykurlöngun og minnka magamál. Ég er líka alltaf með vatnsbrúsa í töskunni og drekk að lágmarki 2 lítra.

Nr. 1. Hollir hristingar 3 sinnum á dag

Ég reyni að hafa alltaf grænmeti í þeim og varast að þeir innihaldi of mikið af hitaeiningum. Hnetusmjör er t.d. fljótt að telja og banani inniheldur um 100 hitaeiningar svo ég set bara einn slíkan í drykkina og nota ekki meira en 2 banana á dag.

7:30 Ég byrja morguninn á hollum hristingi yfirleitt sem inniheldur engifer, spínat og límónu- eða sítrónusafa til að koma mér í gang og hressa og hreinsa kroppinn. Ég geri stóran skammt af drykknum og set rest í krukku eða flösku og tek með mér sem millimál.

9:30 Ég fæ mér ávöxt eða sykurlausa kókóskúlu, raw-stykki (t.d frá Nákd – um 150 hitaeiningar)  eða annað gotterí og kaffi eða te.

12:00 Hálfur lítri af nærandi drykk.

15:00 restin af morgundrykknum.

Svo borða ég kvöldverð en forðast almenna óhollustu eftir fremsta megni og fæ mér lítið af því sem er hitaeiningaríkt. Sem dæmi ef það er pasta og grænmetis- eða kjötkássa (bolognese) fæ ég mér örlítið pasta ef nokkuð, meira af kássunni og set salat á 60% af disknum. Ef mig langar í eitthvert gotterí fæ ég mér jafnvel lítið rauðvínsglas og sykurlausa kókoskúlu eða eplaskífu með hnetusmjöri til hátíðarbrigða. Nicecream er líka í miklu uppáhaldi en varast þarf að borða ekki of eruð mikið af honum þar sem slíkir réttir geta vel innihaldið mikið af hitaeiningum og kolvetnum.

Leyniráð til að flýta fyrir sér: Í Nettó fást pokar með innihaldinu í grænan ofursmoothie, þ.e.a.s. mangó, spínati og ananas. Ég bæti svo við engifer, banana, vatni og kókosmjólk úr fernu sem dæmi. 

Hér er uppskrift að sykurlausum kókoskúlum.

Hér eru uppskriftir að söfum.

Hér er uppskrift að grænu bombu Eðalkroppsins.

Grænu ofurbomburnar hennar Lukku.

Grænn drykkur með góðri lúku af spínati og vænum engiferbút …
Grænn drykkur með góðri lúku af spínati og vænum engiferbút er fullkomin byrjun á deginum. Tobba Marinós / mbl.is

Nr. 2 Sleppa öllum viðbættum sykri

Þegar ákvörðun um að borða ekki sykur dags daglega er tekin leggur það línurnar fyrir svo margt. Ég fæ mér sætmeti ef eitthvað alveg sérstakt er en reyni að forðast það eftir mesta megni og fljótt fer löngunin að dvína. Ég á þó yfirleitt sykurlausa granólabita eða annað gotterí sem slær á mestu sykurlöngunina. Oft dugar líka bara lítið glas af góðum og hreinum safa. Smá hreint grískt jógúrt, ber og sykurlaust granóla er líka hið fínasta trít. Ég bý til mitt granóla sjálf en sykurlausar útgáfur fást nú loks í Nettó (Food Doctor) og Hagkaup (Paulúns).

Það hefur gefist mér vel að taka viku svona og halda svo áfram með drykkinn á morgnana og sem millimál og halda mig við létt salat eða drykk í hádeginu eftir fremsta megni. Ef ég vil gera vel við mig er líka dásamlegt að fá sér hnausþykka smoothie-skál en í uppáhaldi er græna skálin á Gló sem stendur en hún er á tilboði á morgnana.

Ef þið eruð með ábendingar um góða og holla drykki eða millimál þá endilega kommentið hér að neðan.

Nicecream er þykkur ís úr frosnum banönum, kókosmjólk og berjum …
Nicecream er þykkur ís úr frosnum banönum, kókosmjólk og berjum sem dæmi. Einstaklega bragðgott. Tobba Marinós / mbl.is
Kalt te með ávöxtum slær á sykurlöngunina.
Kalt te með ávöxtum slær á sykurlöngunina. Íris Ann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert