Skipulegðu ísskápinn eins og sérfræðingarnir

Ísskápurinn fyrir og eftir skipulag.
Ísskápurinn fyrir og eftir skipulag. One Good Thing By Jillee

Ísskápar eru eitt allra mikilvægasta heimilistækið í nútíma heimilishaldi og skyldi engan undra. Við þurfum víst að borða og nauðsynlegt er að geta geymt matvælin og haldið þeim eins ferskum og kostur er.

Ísskápar eiga það hinsvegar til að safna óheyrilegu magni af krukkum og afgöngum og oftar en ekki gleymist að þrífa þá. Það er fullkomlega skiljanlegt en oft má hagræða hlutunum þannig að auðvelt sé að skipuleggja þá og um leið haldast þeir hreinir og skipulagðir... sem tryggir almenna ánægju allra á heimilinu.

Við lögðumst í mikla rannsóknarvinnu en sérfræðingarnir virðast sammála um að samnefnari góðs ísskápaskipulags sé körfur og merkingar.

Við birtum hér leiðbeiningar frá heimasíðunni One Good Thing sem leysir málið nokkuð vel og í skipulögðum skrefum:

1. Þrif. Fyrsta atriðið á listanum er að þrífa ísskápinn vel en við ætlum ekki að dvelja lengi við það enda segir það sig sjálft að það er alltaf fremur sniðugt að þrífa ísskápinn sinn.

2. Skipulag. Hér er notast við körfur með handfangi en sambærilegar körfur (reyndar án handfangs) er hægt að kaupa í Rúmfatalagernum. Körfurnar eru til í nokkrum stærðum og eru frábær valkostur. Þær kosta frá 79-249 krónur.

3. Krukkur. Margir hafa þá tilhneigingu að fylla ísskápinn af krukkum. Gott er að hafa þær allar á einum stað, helst í hurðinni þar sem þær sjást vel. Notið líka körfur eða kassa undir þær þannig að hægt sé að kippa út t.d. sultukörfunni þegar svo ber við. Eins er gott að hafa allt álegg í einni körfu og smjör og ost í annarri. Þannig er auðvelt að kippa því út sem þú þarft á að halda.

4. Mjólkurvörur. Almennt er mælst til þess að mjólkin sé ekki geymdi í hurðunum þar sem hún getur hitnað (ef alltaf er verið að opna ísskápinn). Þetta er svo sem ekki háheilagt en ef verið er að drekka gos skal gosið frekar geymt í hurðinni þar sem það helst ferskara lengur ef það stendur upprétt í stað þess að liggja á hlið.

5. Grænmeti og ávextir. Ef þú ert með tvær skúffur neðst er gott að skipta þeim á milli grænmetis og ávaxta. Rótargrænmeti þolir lengri tíma í kæli og munið að tómatar þurfa ekki að vera í kælinum. Gott er að hafa grænmetið og ávextina líka í körfum. Þá getur kokkurinn kippt því út þegar á að fara að elda og svo sett aftur inn að eldamennsku lokinni.

6. Nota skúffurnar í annað? Vinir okkar hjá One Good Thing ákváðu að nota skúffurnar neðst frekar fyrir jógúrt og annað og það má. Þið þurfið svolítið að finna út úr því hvað ykkur finnst best.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert