Dill er fyrsta íslenska veitingahúsið til að fá Michelin-stjörnu

Kristinn Vilbergsson, Ólafur Ágústsson framkvæmdarstjóri Dill, Ragnar Eiríksson yfirkokkur á …
Kristinn Vilbergsson, Ólafur Ágústsson framkvæmdarstjóri Dill, Ragnar Eiríksson yfirkokkur á Dill og Gunnar Karl Gíslason annar stofnenda Dill.

„Þetta breytir leiknum fyrir okkur og dregur heimsathygli að veitingastaðnum okkar,“ segir Kristinn Vilbergsson, einn af eigendum Dill.  Hann er staddur í Stokkhólmi ásamt yfirkokknum á Dill, Ragnari Eiríkssyni, að taka á móti Michelin-stjörnu fyrir veitingahúsið. „Þetta dregur athygli að Íslandi og styður við Reykjavik sem mataráfangastað."

Veitingastaðurinn Dill Restaurant hefur getið sér gott orð hérlendis sem erlendis. Hann hefur hlotið margskonar viðurkenningar og hefur nokkrum sinnum verið valinn besti veitingastaður Íslands á listum á borð við White Guide Nordic, Nordic Prize og víðar. Með Michelin-stjörnunni hefur það verið gert opinbert að Dill hlýtur eina stærstu viðurkenningu sem veitingastaðir víða um heim keppast um að fá: hina virtu Michelin-stjörnu. Eigendur Dill eiga einnig Kex Hostel og veitingastaðinn Hverfisgötu 12. 

Dregur athygli að Reykjavík sem matarborg á heimsvísu

„Þetta sýnir að það þarf ekki nema lítinn 20-30 manna stað til að draga athygli að Reykjavik sem matarborg á heimsvísu,“ segir Ragnar. „Dill byggist á íslenskum grunni og íslenskri og norrænni  hugmyndafræði og við notumst við bestu fáanlegu íslensku hráefni í matargerð okkar,“ segir Ragnar. „Þetta er mikil og góð viðurkenning fyrir allt mitt góða samstarfsfólk,“ segir Ragnar. 

Veitngastaðurinn Dill er fyrsti íslenski veitingastaðurinn til að fá Michelin …
Veitngastaðurinn Dill er fyrsti íslenski veitingastaðurinn til að fá Michelin stjörnu.

Hönnun á Dill hefur einnig vakið heimsathygli en hún var í höndum Hálfdans Pedersens og var tilnefnd til hinna virtu Restaurant & Bar Design Awards árið 2015. Hálfdan er leikmyndahönnuður sem hefur skapað sér orð víða um heim fyrir störf sín.  Hann gerði leikmyndir fyrir kvikmyndir á borð The Good Heart og París norðursins og hefur einnig séð um innanhúshönnun fyrir KEX Hostel, Geysi, Mikkeller og mörg önnur fyrirtæki.

Ragnar Eiríksson matreiðslumaður tók við stöðu yfirkokks í árslok 2015 þegar annar stofnenda Dill, Gunnar Karl Gíslason, flutti af landi brott til að standsetja veitingastaðinn Agern á Grand Central Terminal í New York í samstarfi við Claus Meyer. Agern fékk sína Michelin-stjörnu seint á síðasta ári.

Veitingastjóri Sæmundar í sparifötunum, Ólafur Ágústsson, tók við stöðu Gunnars og er nú starfandi framkvæmdastjóri á Sæmundi í sparifötunum og hefur yfirumsjón með Dill Restaurant, Hverfisgötu 12 og Mikkeller & Friends Reykjavík ásamt Hinriki Carl Ellertssyni.

Sjá má myndskeið frá verðlaunaafhendingunni sem fór fram í Stokkhólmi fyrr í dag hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert