Kókosolían er ekki hjartans mál

Kokosolían þykir ekki eins holl og ætla mætti.
Kokosolían þykir ekki eins holl og ætla mætti. Getty Images/iStockphoto

Í nýútgefnum ráðleggingum bandarísku hjartaverndarsamtakanna er mælt gegn því að fólk neyti kókosolíu því hún hækki vonda kólestrólið. Kókosolía hefur hins vegar verið markaðssett sem heilsuvara. En hvert er inntak ráðlegginganna og hvaða fitu eigum við að borða? 

Það varð uppi fótur og fit í heilsuheiminum þegar nýjar ráðleggingar frá bandarísku hjartaverndarsamtökunum (American Heart Association, AHA) um fitu og áhrif neyslu hennar á hjarta- og æðasjúkdóma voru birtar á dögunum. Mesta athygli vakti að kókosolía, sem gjarnan er flokkuð sem heilsuvara, er ein þeirra fitutegunda sem ráðlagt er að minnka neyslu á.

Viðamikil yfirferð sérfræðinga

Ráðleggingarnar eru heilmikil samantekt sem byggir á yfirferð sérfræðinga á fjölda rannsókna sem gerðar hafa verið á undanförnum árum í tengslum fitu við hjarta- og æðasjúkdóma. Aðalhöfundur er Frank Sacks, prófessor í forvörnum hjarta- og æðasjúkdóma við Harvard T.H. Chan School of Public Health í Boston, en auk hans eru ellefu aðrir sérfræðingar titlaðir höfundar.

Tvær niðurstöður þessarar viðamiklu yfirferðar sérfræðinganna eru mikilvægastar að mati þeirra sjálfra og dregnar sérstaklega fram í fréttatilkynningu sem send var út þegar ráðleggingarnar voru birtar:

Í fyrsta lagi sýna vísindarannsóknir, þar sem þátttakendur eru látnir minnka neyslu á mettaðri fitu en auka á sama tíma neyslu á ómettaðri fitu, fram á að hætta á hjarta- og æðasjúkdómum minnkar um allt að 30%, sem eru svipuð áhrif og kólestróllækkandi lyf hafa.

Í öðru lagi fundu höfundar margar rannsóknir sem sýndu fram á að kókosolía, sem er að mestu mettuð fita en er almennt talin vera hollustuvara, hækkar vonda kólestrólið (LDL) á sama hátt og smjör, nautafita og pálmaolía.

Niðurstaðan er því sú að bandarísku hjartaverndarsamtökin halda áfram að ráðleggja fólki að skipta út mettaðri fitu fyrir ómettaða vilji það minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Engu máli skiptir hvort mettaða fitan heitir kókosolía eða eitthvað annað

En er þetta ekki hollustuvara?

Í þeim kafla skýrslunnar sem fjallar sérstaklega um kókosolíu er vikið að könnun sem gerð var í Bandaríkjunum og leiddi í ljós að um 73% landsmanna töldu kókosolíu í flokki heilsuvara en 37% næringarfræðinga töldu hana í þeim flokki. Leitt er að því líkum í skýrslunni að þennan mun megi skýra með mikilli markaðssetningu á kókosolíu sem hollri og á einhvern hátt öðruvísi olíu en annarri mettaðri fitu. Niðurstaða sérfræðinganna sem standa að ráðleggingunum er þó sú að kókosolía sé einmitt ekki frábrugðin annarri mettaðri fitu.

Reifaðar eru niðurstöður sjö vísindarannsókna þar sem kókosolía og önnur mettuð fita er borin saman við ómettaða fitu. Niðurstöður þeirra allra eru í eina átt: kókosolía hækkar vonda kólestrólið. Enginn munur fannst á kókosolíu og smjöri, nautafitu eða pálmaolíu. Þó er tekið fram að engar rannsóknir finnist sem sýna beinlínis að neysla kókosolíu valdi hjarta- og æðasjúkdómum. En þar sem rannsóknir bendi til þess að kókosolíka, líkt og aðrar tegundir mettaðrar fitu, hækki vonda kólestrólið í líkamanum er fólki ráðlagt að forðast neyslu hennar.

Áhersla er lögð á það í ráðleggingunum að fólk haldi áfram að borða fitu, en reyni eftir fremsta megni að minnka neyslu á mettaðri fitu, sem er t.d. dýrafita, kókosolía og pálmaolía en auki á móti neyslu á ómettaðri fitu. Margir falli í þá gryfju að minnka fitu í fæðunni og skipta henni þá út fyrir kolvetni og sykraðan mat, en það er varasamt. Mælt er með því í skýrslunni að auka neyslu á ómettaðri fitu líkt og ólífuolíu, jarðhnetuolíu, canola-olíu, avókadó og fleiru. Hjartað vill það að minnsta kosti frekar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert