Leyndarmálið á bak við fullkomið kaffi

Myndin á könnunni er einkennisteikning Bialetti og er af syni …
Myndin á könnunni er einkennisteikning Bialetti og er af syni Alfonso Bialetti. Ljósmynd: Bialetti

Það er fátt sem getur talist mikilvægara en fyrsti kaffibolli dagsins. Sé hann góður má með sanni segja að dagurinn fari vel af stað og lífið brosi við manni en sé hann súr eða daufur getur allt farið á hliðina.

Venjulegar kaffikönnur eru sífellt sjaldgæfari sjón og í þeirra stað er staðalbúnaður á heimilum oftar en ekki flóknar og framúrstefnulegar kaffivélar sem oft þarf meirapróf til að ná í gang.

Þetta eru þó töluverðar ýkjur en flestum hefur lærst að það er ekki nóg að eiga dýra kaffivél heldur þarf hún líka að búa til gott kaffi.

Kaffi sjálft þarf síðan að standa undir nafni en ekki má heldur gleyma því að oft er einfaldleikinn bestur. Við tókum saman lista yfir atriði sem öll tryggja með einum eða öðrum hætti að kaffi verði fullkomið.

1. Bialetti kaffikönnur: Kaffi úr mokkakönnu minnir á expressó; kaffið bruggast undir nokkrum þrýstingi þegar vatnið sýður og verður að gufu, sem skilar sér síðan í sterkara og fyllra kaffi en til dæmis úr bréfsíu. Það var Alfonso Bialetti sem er maðurinn á bak við Bialetti könnurnar en þær eru sérlega frægar fyrir það að loksins gátu Ítalir á fremur einfaldan hátt gert expressó kaffi heima hjá sér. Bialetti könnur er hægt að fá í Kaffitár.

2. Rjómi: Það er alveg sama hvað menn þræta fyrir það en kaffi með rjóma er einfaldlega betra. Rjóminn ljær kaffinu silkimjúka áferð og þeir sem teljast sanntrúaðir rjómadrykkjumenn líta á matreiðslurjóma sem hálfkák og neita að drekka nokkuð annað en alvöru 36% rjóma.

3. Kaffikvörn: Nýmalaðar baunir eru einfaldlega betri. Með því móti færðu besta bragðið og nýtur kaffins mögulega miklu betur. Þetta er fyrir alvöru gourmet-kaffi fólk sem vissulega finnur muninn. Flestir finna engan mun en sé lagt upp með að laga hinn fullkomna kaffibolla er ekki úr vegi að fjárfesta í kvörn. Kaffikvarnir fást víða hér á landi og eru flestar rafknúnar.

4. Bragðbættu kaffið: Það eru margir sem svindla örlítið og setja bragðbæti saman við duftið. Hér er til dæmis vinsælt að nota kanil eða önnur krydd sem gefa kaffinu ævintýralegan blæ. Best er að prófa sig áfram og nota alls ekki of mikið meðan verið er að stilla bragðið. Önnur vinsæl bragðbót er kókos og síðan hafa einhverjir verið að prófa sig áfram með kryddjurtir á borð við blóðberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert