Byrjaði 15 ára að baka og stýrir stórveldi í dag

Fimmtán ára byrjaði hún að baka bollakökur með skelfilegum árangri, að minnsta kosti fyrst um sinn. Vinirnir voru settir í að smakka og smám saman komst hún á lagið og kökurnar slógu í gegn. Hún opnaði sitt eigið fyrirtæki en móðir hennar var ákveðin í því að hún skyldi ná sér í háskólagráðu. Eftir það mætti hún fara sínar eigin leiðir. Síðan eru liðin sautján ár og vegferð Prao Vajrabhaya, framkvæmdastjóra Thai Choice heldur áfram.

Prao er stödd hér á landi til að styrkja við Thai Choice vörumerkið en flestir Íslendingar kannast við þær vörur enda frábærar og fást í flestum verslunum landsins. Það vita hins vegar færri að Prao er dóttir Nong Wattanasiri sem stofnaði fyrirtækið. Í öruggum höndum hennar hefur fyrirtækið vaxið og dafnað en smám saman er Prao að taka yfir stjórnina og er hún hæstánægð með það. „Ég elska að elda og eiginlega elska ég allt sem viðkemur mat en það er kannski ekkert skrítið,“ segir Prao en það er kannski ekkert skrítið þar sem hún er alin upp í þessu umhverfi. „Tólf ára gömul er ég farin að ferðast um heiminn með mömmu til að heimsækja matarsýningar, en upphaflega langaði Prao að verða matreiðslumaður. „Mamma tók það hins vegar ekki í mál þar sem slíkt starf er því miður ekki mikils metið hér í landi. Hún lagði ríka áherslu á það að ég menntaði mig og það lá vel fyrir mér. Ég nam viðskiptafræði og síðan fór ég til Bretlands þar sem ég tók master í frumkvöðla- og fjármálafræði.“

Sú menntun átti eftir að koma sér vel því Prao opnaði sitt eigið fyrirtæki sem seldi kökur. „Svo varð eitthvað undan að láta þannig að ég hef ekki sinnt því vel þar sem Thai Choice á hug minn allan.“ En brownie kökurnar hennar voru valdar af ísframleiðandanum Ben and Jerry´s þar í landi sem þykir gríðarleg viðurkenning.

Í dag sér Prao um velflestar hliðar reksturs Thai Choice um heim allan og ferðast mikið. Hún er ánægð með Íslendinga og fjölskyldan á hér góða vini enda margoft heimsótt land og þjóð. „Mér finnst frábært að ferðast og kynnast fólkinu sem við erum í viðskiptum við. Thai Choice leggur gríðarlega mikið upp úr gæðum vörunnar og við viljum að það skili sér alla leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert