„Hef lúmskan grun um að það hafi verið borgarstjórinn“

Súkkuaðifjölskyldan fagra.
Súkkuaðifjölskyldan fagra. mbl.is/Odense Chocoladehus

Þormar Þorbergsson og Tine Buur Hansen eru Íslendingum að góðu kunn enda fólkið á bak við Café Konditori Copenhagen sem rekið var við góðan orðstír í fjölda ára. Þau söðluðu um árið 2006 og korter í hrun á Íslandi opnuðu þau súkkulaðibúðina Odense Chocoladehus. Þau eru þessa stundina tilnefnd til verðlauna í heimaborginni Óðinsvéum en þar er verið að verðlauna framúrskarandi fyrirtæki í borginni.

„Við sjáum ekki eftir því í dag þó það hafi verið andskoti töff til að byrja með. Að selja lúxus vörur þegar allir voru að spara fannst bankanum fjarstæðukennd hugmynd en ég hlustaði ekkert á það,“ segir Þormar í samtali við Matarvefinn. „En við létum hjartað ráða för. Afi minn í Vestmannaeyjum hann Dóri Ben, sagði alltaf „þeir fiska sem róa“ og ég hef alltaf lifað svolítið eftir því.“

Stemningin skiptir máli

„Við höfum áður fengið viðurkenningar en til að vera alveg heiðarlegur þá gengst ég ekkert sérstaklega upp í því. Það sem mestu máli skiptir e r að geta stafað við það sem maður hefur brennandi áhuga á og að viðskiptavinurinn fái alltaf eitthvað gott þegar hann kemur í búðina okkar. Þá næst upp góð stemning og fólk “hygger” sig," segir Þormar um það sem skiptir mestu máli að hans mati. 

„Þessi verðlaun sem við erum tilnefnd til eru einskonar hvatningarverðlaun fyrir þá sem eru að reka verslanir hér í Óðinsvéum. Það er mikil uppbygging hérna og í framhaldinu er verið að hvetja fólk til að opna búðir, kaffihús, veitingahús og þar fram eftir götunum. Nú er verið að velja bestu nýsköpunina og við erum hluti af því,” segir Þormar.

Alltaf gaman að fá klapp á axlirnar

„Ég veit svo sem ekki hvað þetta þýðir fyrir okkur en við fáum umfjöllun og þetta vekur athygli á því sem við erum að gera. Það er alltaf gaman að fá smá klapp á axlirnar. Það sem er kannski sérstakt við þessi verðlaun að þetta er ekki keppni sem maður tekur þátt í heldur fer þetta þannig fram að það er einhver úr einhverri nefnd sem tilnefnir okkur og svo mæta leynidómarar í búðina og dæma þjónustuna, vörurnar og þar fram eftir götunum. Síðan getur almenningur kosið á netinu.“  

„Ég hef nú reyndar lúmskan grun um að það hafi verið borgarstjórinn hér í Óðinsvéum sem hafi tilnefnt okkur en við sjáum um allar veitingar fyrir hann þegar haldnar eru móttökur í ráðhúsinu, en ég er svo sem ekkert endilega viss,“ segir Þormar en hann segir jafnframt að vinsælasta varan hjá þeim hjónum séu franskar makkarónur en þau selja mikið af þeim fyrir allskonar tilefni. „Við erum eiginlega orðin hálfgerð makkarónufrabrikka - svona alveg óvart. Það er dálítið vandasamt að baka makkarónur og ekki allir sem ná tökum á því en ég hef sérhæft mig í þessu og er stærstur í því hér á Fjóni.“

Þormar segir súkkulaðibransann vera sveiflukenndan. „Það er brjálað að gera í kringum jól og páska og svo er auðvitað afskaplega rólegt í janúar þegar allir fara í megrun. Á sumrin framleiðum við ís og búum til mikið af brúðartertum en yfir vetrartímann er þetta mest konfektgerð ýmiskonar. Með þessu hef ég líka verið að halda fyrirlestra hingað og þangað um Danmörk, haldið námskeið í konfektgerð sem er eitthvað sem ég hef mjög gaman af. Maður er svolítið að breiða út fagnaðarerindið og kenna fólk að borða rétt en samt óhollt.“

Þormar heldur reglulega námskeið.
Þormar heldur reglulega námskeið. mbl.is/Odense Chocoladehus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert