Hvenær er best að borða?

Það er ekki sama hvaða tíma dagsins er borðað.
Það er ekki sama hvaða tíma dagsins er borðað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn hörgull er á ráðleggingum um hvernig fólk á að haga máltíðum sínum til að halda líkamanum léttum og hraustum. Sumir vilja meina að máltíðir seint á kvöldin séu meira fitandi, aðrir segja að fyrsta máltíð dagsins eigi að vera stærst, og máltíðirnar þar á eftir hver annarri minni – eða þvert á móti að morgunverðurinn þurfi að vera sem minnstur og kvöldverðurinn vel útilátinn.

Núna virðast rannsóknir benda til þess að það sé ekki fjöldi, stærð eða tímasetning máltíðanna sem skiptir máli, heldur að borða aðeins innan ákveðins tímaglugga í sólarhringnum. Á ensku kallast þetta „time restricted eating“, sem mætti þýða sem „tímatakmarkað mataræði“ grundvallast á því að þau efni í líkamanum sem melta og nýta næringarefnin í matnum eru virkust á ákveðnum tímum dags. Með því að borða í samræmi við efnaskiptasaveiflur í kroppnum á að vera hægt að halda aukakílóunum í skefjum og jafnvel bæta heilsuna á ýmsa vegu.

Í einni rannsókn kom í ljós að þegar ekki liðu meira en tíu klukkustundir frá fyrstu máltíð dagsins til þeirrar síðustu innbyrtu þátttakendur 20% færri hitaeiningar. Aðrar rannsóknir virðast benda til þess að fólk léttist með því að borða innan 7-12 tíma glugga þó svo að heildarmagn hitaeininga eða fæðuval haldist óbreytt. Þá virðist reglan um hámarkstíma á milli máltíða virka best ef fólk borðar á daginn og lætur vera að matast eftir að sólin er sest og líkaminn hægir náttúrulega á efnaskiptum sínum.

Forvitnileg tilraun var gerð á músum sem fóðraðar voru á mjög óhollu fæði. Þær mýs sem gátu étið hvenær sem þær vildu urðu fljótt feitar og haldnar alls kyns kvillum, en mýsnar sem átu sama fæði en aðeins á þeim tíma dags sem efnaskipti þeirra voru á fullri ferð, urðu ekki spikfeitar heldur fengu stærri vöðva og jafnvel aukið úthald.

Þeir sem vilja gera tilraun með tímatakmarkað mataræði (og eiga síma frá Apple) ættu að skoða forritið Zero, sem hjálpar fólki að mæla tímann milli máltíða. Forritið má stilla eftir þörfum til að velja þann tímaramma sem hentar, hvort sem markmiðið er að takmarka máltíðirnar við ákveðinn fjölda klukkustunda eða borða aðeins á meðan sólin er á lofti. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert