Stórt og glæsilegt eldhús á Hornafirði

Þetta svarta og glæsilega eldhús má finna á Hornafirði.
Þetta svarta og glæsilega eldhús má finna á Hornafirði. mbl.is/Mynd aðsend

Nútímalegt, stílhreint, matt og svart – eru orðin sem lýsa eldhúsinu hvað best. Fyrir utan glæsileikann og gleðina sem eldhúsið býr yfir.

Hér búa Þóra Birna og Níels Brimar ásamt þremur börnum undir fjögurra ára aldri. Þóra Birna, sem kýs að kalla sig Tótlu, er þessa dagana í fæðingarorlofi en starfar öllu jafna á leikskóla í firðinum fagra, Hornafirði. Níels Brimar er málarameistari sem hefur reynst afar vel í þeim verkefnum sem þau hafa staðið í síðastliðið ár – er þau hentu sér í djúpu laugina í lok árs 2019, og ákváðu að byggja sér hús. Þau fluttu inn í húsið nánast fullbúið í maí á síðasta ári. „Mér finnst það enn þá ótrúlegt miðað við allt sem gekk á, covid, ég var ólétt að þriðja barninu og Níels aldrei heima því hann var að græja eitt stykki hús meðan ég sá um litlu tveggja og þriggja ára börnin í hápunkti ógleðinnar. En þetta gekk allt upp því við erum svo frábært teymi. Við erum að vísu enn að framkvæma en það er aðallega frágangur utanhúss sem er eftir, pallur, gróður og annað,” segir Tótla.

Eldhúsið er um tuttugu fermetrar að stærð, en húsráðendur hönnuðu …
Eldhúsið er um tuttugu fermetrar að stærð, en húsráðendur hönnuðu eldhúsið sjálf. Takið eftir fallegu harðplast borðplötunni sem þau fengu hjá Fanntófell - hún setur sinn svip á rýmið. mbl.is/Mynd aðsend

Tuttugu fermetra eldhús
Þau skötuhjúin hafa bæði mikinn áhuga á hönnun, fallegum heimilum og byggingalist. Áhugi Tótlu liggur þó meira í fallegum skrautmunum og í því að gera fínt í kringum sig. Nýja eldhúsið er stórt og glæsilegt – enda rúmir 20 fermetrar. En þau lögðu upp með að hafa nægt geymslupláss, stílhreint útlit og vönduð heimilistæki. „Á einum veggnum eru háir skápar með innbyggðum ísskáp, ofnum og tækjaskáp. Á hinum tveim veggjunum og tanganum eins og þetta er víst kallað, eru eingöngu neðri skápar. Helluborðið er með innbyggðri viftu sem ég er sérstaklega ánægð með. Það er enn þá smávegis óklárað, eins og að klæða fyrir ofan háu skápana og endanlegur frágangur. Einnig langar mig til að gera eitthvað meira fyrir kaffihornið, fá mér fleiri falleg bretti til að hafa sýnileg uppi á bekknum og meira svona dúllerí,” segir Tótla. „Ég verð líka að segja hvað mér þykir veggirnir ótrúlega töff í eldhúsinu, en þeir eru spartlaðir með efni sem heitir KC14 og er litað spartl sem við fengum hjá Flugger Litum. Þetta toppar svo heildarlúkkið,” segir hún og við erum fullkomlega sammála.

Innréttingin er framleidd úr endurunnu plasti og kemur frá Ikea. …
Innréttingin er framleidd úr endurunnu plasti og kemur frá Ikea. Ofnarnir eru Bosch Accent Line úr Elko, sem Tótla og Níels mæla heilshugar með. mbl.is/Mynd aðsend

Hönnuðu eldhúsið sjálf
Tótla og Níels leituðu ekki til fagaðila varðandi hönnunina á eldhúsinu og tókst heldur betur vel til að okkar mati. Innréttingin er úr Ikea og var nánast þeirra fyrsta val. „Það er svo frábært að vinna með Ikea. Þau eru með forrit á netinu sem hægt er að leika sér í fram og til baka og hentar sérstaklega vel fyrir landsbyggðarfólk, eins og okkur sem getum ekki skotist svo auðveldlega í eldhúsleiðangur. Við skoðuðum fleiri innréttingar en það sem heillaði okkur hvað mest við Ikea voru sveigjanlegir möguleikar og auðvelt er að breyta innréttingunum án mikils tilkostnaðar. Ég lá reyndar líka með nefið ofan í Hús og híbýli, Pinterest og Instagram til að fá hugmyndir. Við vorum líka dugleg að biðja um álit frá okkar nánasta fólki, en í stuttu máli er þetta alveg okkar,” segir Tótla okkur.

Svörtu vegghillurnar eru frá Ikea, en Þóra Birna spreyjaði þær …
Svörtu vegghillurnar eru frá Ikea, en Þóra Birna spreyjaði þær svartar. mbl.is/Mynd aðsend

Mælir með rafmagnsþrýstiopnara í ruslaskúffuna
Yfirborð innréttingarinnar er úr plastfilmu sem framleidd úr endurunnu plasti, sem dregur úr sóun og plastið fær nýtt hlutverk. En aðspurð segir Tótla vinnuplássið klárlega vera það besta við eldhúsið, en hún á það til að dreifa vel úr sér í eldhúsinu við eldamennskuna. „Ég verð að nefna líka rafmagnsþrýstiopnarann í ruslaskúffunni, því brussan ég á oft til að vera með fullar hendur þegar ég ætla að fara henda einhverju í ruslið. Þú bara rétt tillir mjöðminni, hnénu eða fætinum í skúffuna og hún opnast, mæli alveg klárlega með því,” segir Tótla

Takið eftir fallega gráa litnum á veggjunum. Þetta er litað …
Takið eftir fallega gráa litnum á veggjunum. Þetta er litað spartl frá Flugger sem gefur eldhúsinu sérstakan karakter. mbl.is/Mynd aðsend

Ritz-kex-hakkbollur vinsælasti maturinn
Það hefur verið minna um gestagang á heimilinu vegna heimsfaraldursins og litla nýfædda barnsins. En eldhúseyjan er þar sem fólk safnast saman og spjallar yfir pottunum. Eins sést líka auðveldlega úr eldhúsinu yfir í borðstofu, svo Tótla missir ekki af neinu ef gestir sitja þar til borðs. En er hún dugleg að elda? „Já, ég hef alltaf haft gaman af því að elda. Ég er mikið í þessum auðveldu uppskriftum og elda oftast þennan venjulega heimilismat. En þegar ég er í stuði finnst mér ótrúlega gott að elda mexíkóska kjúklingasúpu frá grunni eða núðlukjúklingasalat og heimabakað naan-brauð sem er uppskrift frá frænku hans Níelsar. En vinsælasti maturinn á þessu heimili eru Ritz-kex-hakkbollur,” segir Tótla að lokum.

Þeir sem vilja fylgjast með Tótlu á samfélagsmiðlum geta skoðað Instagram hennar HÉR.

mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is/Mynd aðsend
Helluborðið er með innbyggðri viftu.
Helluborðið er með innbyggðri viftu. mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is/Mynd aðsend
Þóra Birna, eða Tótla eins og hún er kölluð - …
Þóra Birna, eða Tótla eins og hún er kölluð - kann sannarlega að nostra við heimilið. mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert