Mikill áhugi var á opinni æfingu íslenska Eurovison-hópsins í Palats Sportu í Kænugarði í gærkvöldi. Fram kemur á vefnum esctoday.com að þetta hafi verið fjölsóttasta æfingin og Selma hafi fengið bestar viðtökur áhorfenda til þessa.
Vefurinn segir að íslenska atriðið sé kraftmikið og einnig hafi verið ljóst að samvinna Selmu og dansaranna fjögurra sé afar góð því alltaf þegar hlé var gert á æfingunni hafi þær sungið saman og hvatt hver aðra áfram.
Selma hélt blaðamannafund í kjölfarið. Esctoday.com segir að svo virðist sem þróun blaðamannafundanna í Kænugarði sé sú að þar sé minna og minna talað en meira og meira sungið og þessi fundur hafi ekki verið nein undantekning. Selma söng nokkra gamla Eurovision-slagara, m.a. Neka mi ne svane, framlag Króatíu árið 1998, við mikla hrifningu viðstaddra. Selma söng einnig lagið All out of luck, sem hún flutti í Euorovision árið 1999, en í þetta skipti var viðlagið á þýsku. Að auki söng hún íslenskt þjóðlag.
Flestar spurningarnar, sem Selma fékk, tengdust þátttöku hennar í Eurovision árið 1999. Hún sagði aðspurð, að 2. sætið það ár hefði opnað margar dyr fyrir hana sem poppsöngvara en áður hefði hún einkum verið þekkt sem leikkona. Þegar hún var spurð hvernig henni hefði þótt að lenda í 2. sæti svaraði hún. „Ég var sennilega sú rólegasta í íslenska hópnum. Þetta var óraunverulegt og það var ekki fyrr en síðar að ég gerði mér grein fyrir því að ég vann næstum því. Ég var afar ánægð með 2. sætið."
Fram kom að Selma mun koma fram á Gay Pride í Noregi ásamt Páli Óskari Hjálmtýssyni.
Selma var að lokum spurð hvaða sigurlag í Eurovision hún myndi velja fyrir alla 39 keppendurna í Kænugarði. Eftir smá umhugsun svaraði hún: All kinds of everything.
Ísland mun næst halda opna æfingu 18. maí.