Bandaríski leikarinn Peter Boyle lést í gær á sjúkrahúsi í New York, 71 árs að aldri, en hann átti við hjartasjúkdóm að stríða. Boyle lék í fjölda kvikmynda en á síðari árum var hann kunnastur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðinni Everybody Loves Raymond.
Boyle varð fyrst kunnur fyrir að leika í kvikmyndinni Joe árið 1970. Í kjölfarið lék hann í myndinni The Candidate ásamt Robert Redford og skrímslið í gamanmyndinni Young Frankenstein, sem Mel Brooks gerði árið 1974, svo nokkuð sem nefndt.
Boyle lék einnig í sjónvarpsmyndum og fékk m.a. Emmy-verðlaun fyrir gestaleik í sjónvarpsþáttunum X Files.
Árið 1990 fékk Boyle heilablóðfall og gat ekki talað í hálft ár. Árið 1999 fékk hann hjartaáfall þar sem hann var að leika í sjónvarpsþáttunum um Raymond en náði fljótt heilsu aftur.
Boyle lætur eftir sig eiginkonu og tvær dætur.