Stundvíslega klukkan 6 á morgnana er klórað í glugga á heimili Guðlaugar Þorkelsdóttur í Grafarvoginum. Þar er á ferðinni tæplega eins árs köttur nágrannanna, Harry, sem ætlar sér að verja deginum með Mása og Persa, köttunum sem fyrir eru á heimili Guðlaugar. Reyndar er Guðlaug alltaf komin fram úr þegar Harry guðar á gluggann.
,,Mási vekur mig með kossi klukkan fimm á hverjum morgni og fer síðan fram í eldhús. Fari ég ekki strax fram úr til að gefa honum kemur hann og sækir mig," segir Guðlaug.
Hún segir Mása ráða öllu á heimilinu. ,,Hann ráðskast með mig fram og til baka og étur allt frá Persa enda er hann orðinn 8 kíló. Persi, sem er um 4 kíló, bíður bara rólegur því hann veit að ég gef honum þegar Mási er farinn út. Þegar Harry er kominn inn um gluggann fer hann beint í matarskálina í eldhúsinu og Mási bíður reyndar oft eftir honum. Eftir að hafa gætt sér á soðinni ýsu, sem er uppáhaldsmaturinn, eða kattarfóðri leggja þeir sig svo saman eða fara út saman og ganga alltaf sama hringinn í hverfinu. Mási gætir Harrys alltaf fyrir öðrum köttum."
Persi er ekki jafnhrifinn af Harry litla sem vanið hefur komur sínar á heimilið frá því í maí síðastliðnum. ,,Harry á heimili en þar eru hundar og það er kannski þess vegna sem hann sækir til okkar. Frá okkur fer hann ekki fyrr en klukkan 22 á kvöldin og þá fer hann beina leið heim til sín." Guðlaug segir húsbændur Harrys vita af komum hans til hennar.
,,Þeir hafa bent á að hann eigi greiðan aðgang að sínu eigin heimili en ég get ekki annað en hleypt honum inn. Hann nýtur þess svo að vera með Mása."