Unglingar


Páskarnir eru elsta hátíð kristinna manna en þá minnast þeir krossfestingar og upprisu Krists.

Tímasetning páska og kristilegra hátíða, sem tengjast þeim, er reiknuð út frá tunglmánuði líkt og tíðkast í gyðingdómi og getur páskahelgin fallið á tímabilið frá 22. mars til 25. apríl.

Páskar kristinna manna eru haldnir um svipað leyti og páskar gyðinga enda var Kristur handtekinn og krossfestur skömmu eftir að hafa neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum sínum. Páskahátíð gyðinga, sem á hebresku kallast Pasach, er haldin til minningar um brottförina úr Egyptalandi og það að Drottinn hljóp yfir hús Ísraelsmanna er hann deyddi frumburði Egypta.

Talið er að páskahátíðin eigi sér þó mun eldri rætur meðal gyðinga sem vorhátíð. Það sama á við í Evrópu þar sem hin kristna hátíð blandaðist saman við eldri vorhátíðir. Enn þann dag í dag má rekja ýmis páskatákn til þessara heiðnu hátíða svo sem páskalambið, páskaegg og páskakanínur en öll tengjast þau vorkomunni með skýrum þætti.

Einnig má sjá merki fornra vorhátíða í nöfnum hátíðarinnar, bæði á ensku og þýsku. Þannig kallast hún "Easter" á ensku og "Ostern" á þýsku en bæði nöfnin eru af sömu rót og orðið "austur", átt sólaruppkomunnar. Þá telja sumir að nöfnin eigi rætur að rekja til nafns fornrar vorgyðju. Íslenska orðið "páskar" er hins vegar dregið af hebreska orðinu "pasach", líkt og latneska heitið "pascha".

Langafasta og dymbilvika

Það er gamall siður meðal kristinna manna að fasta á kjöt í fjörutíu daga fyrir páska og minnast þannig föstu Krists í óbyggðunum. Sprengidagur er síðasti dagur fyrir lönguföstu en nafn hans vísar til þess að fólk vildi borða vel fyrir föstuna.

Í kristinni trú inniheldur páskavikan, sem kölluð er dymbilvika, helgustu daga ársins. Pálmasunnudagur er fyrsti dagur dymbilviku. Hann er haldinn sunnudaginn fyrir páska til minningar um það að Jesús reið inn í Jerúsalem til að halda páskahátíð gyðinga. Nafnið má rekja til þess að fólk fagnaði honum og lagði pálmagreinar í götu hans.

Fimmtudagur í dymbilviku nefnist skírdagur. Þá minnast kristnir menn þess er Jesús neytti síðustu kvöldmáltíðarinnar með lærisveinum sínum. Lýsingarorðið "skír" merkir hreinn og vísar hér bæði til þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna og til hreinsunar sálarinnar en dagurinn hefur í Kristni öðlast sess sem dagur iðrunar.

Samkvæmt kristinni trú var Jesús krossfestur á föstudeginum langa. Nafnið vísar til hinnar löngu pínu Krists á krossinum. Á ensku kallast dagurinn hins vegar "Good Friday" og er þar vísað til þess að hann var upphaf fagnaðarerindindins.

Páskadagur er ein mesta hátíð kristinna manna en þá fagna þeir því að Jesús reis upp frá dauðum. Samkvæmt þjóðtrú dansar sólin af gleði nokkur augnablik á páskadagsmorgun, á nákvæmlega sömu stundu og Jesús reis upp frá dauðum.

Uppstigningardagur er haldinn 40 dögum eftir páska og hvítasunna tíu dögum síðar. Samkvæmt frásögn Biblíunnar steig Jesús upp til himna á uppstigningardag og sendi lærisveinum sínum heilagan anda á hvítasunnu.