Ísland niður um eitt sæti á lista yfir stöðu mæðra

Ísland er í þriðja sæti og fellur niður um eitt sæti samkvæmt árlegri skýrslu Barnaheilla, Save the Children í Bandaríkjunum, um stöðu mæðra í heiminum 2008. Skýrslan, sem er gefin út í tengslum við mæðradaginn, kemur út í dag.

Í skýrslunni eru bornar saman aðstæður mæðra og barna í 146 löndum. Norðurlöndin koma best út. Svíþjóð er í efsta sæti og síðan koma Noregur og Ísland. Afríkuríkið Níger er í neðsta sæti og áberandi er hve mörg Afríkulönd sunnan Sahara raða sér í neðstu sætin, segir í frétt frá Barnaheillum.

Munur á milli aðstæðna kvenna og barna á Norðurlöndunum og Níger eru sláandi. Eitt af hverjum fjórum börnum nær ekki fimm ára aldri í Níger, meðan eitt af hverjum 333 börnum nær ekki fimm ára aldri á Íslandi. Íslenskar konur hafa að meðaltali 19 ára skólagöngu og meðallífaldur þeirra er 83 ár, en konur í Níger ganga minna en þrjú ár í skóla og geta ekki búist við að ná 45 ára aldri. Allar konur á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum fá aðstoð heilbrigðisstarfsfólks við fæðingu meðan 33% kvenna í Níger fá slíka aðstoð.

Skýrslan leiðir í ljós að yfir 200 milljónir barna undir fimm ára aldri fá ekki lágmarks heilbrigðisþjónustu eins og bólusetningu og meðferð við niðurgangi og lungnabólgu.

Það leiðir aftur til þess að árlega deyja tíu milljónir barna undir fimm ára aldri, þ.e. 26.000 börn á dag, við fæðingu eða úr kvillum sem svo auðveldlega væri hægt að koma í veg fyrir eða lækna. Árlega deyja um 500.000 konur vegna þungunar eða barnsburðar.

Mikill munur er á aðstæðum mæðra, lífslíkum barna og aðgangi að heilsugæslu og menntun milli ríkra og fátækra ríkja, en einnig er mikill munur innan fátækari ríkja og innan sumra ríkari landa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert