Ísland hækkar á lista um samkeppnishæfni þjóða

Þrátt fyrir umrót í viðskiptalífinu undanfarið ár hækkar Ísland á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni þjóða úr 23. sæti 2007-2008 í 20. sæti 2008-2009.

Sem fyrr eru Bandaríkjamenn í efsta sætinu en næst koma Sviss, Danmörk, Svíþjóð og Singapor. Bretland fellur af listanum yfir tíu ríkin vegna veikingar markaða þar í landi og er núna í 12. sæti.

Samkeppnishæfnivísitala World Economic byggist á opinberum tölfræðiupplýsingum og viðhorfskönnun sem gerð er meðal stjórnenda í atvinnulífi 134 landa. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins á Íslandi og sá um framkvæmd könnunarinnar síðastliðið vor.

Styrkleikar Íslands felast meðal annars í sterkum stofnunum (6. sæti), heilsu og grunnmenntun (2. sæti), framhaldsmenntun (4. sæti), tækni (6. sæti) og skilvirkni vinnumarkaðarins (6. sæti), en veikleikar Íslands eru breyturnar þjóðhagslegur stöðugleiki (56. sæti) og markaðsstærð (118. sæti). Í skýrslu World Economic Forum kemur fram að aðgangur að fjármögnun og verðbólga valda mestum vandkvæðum í viðskiptum á Íslandi.

„Stefnumótendur standa andspænis hækkandi matvæla- og olíuverði, alþjóðlegri fjármálakreppu og kólnun í helstu hagkerfum heimsins með tilheyrandi áskorunum. Ójafnvægi sem nú ríkir undirstrikar mikilvægi þess að efnahagsumhverfið styðji við samkeppnishæfni til að hjálpa löndum við að standa storminn af sér og tryggja frammistöðu hagkerfisins til framtíðar,“ segir Xavier Sala-i-Martin, prófessor í hagfræði við Columbia í Bandaríkjunum og meðhöfundur Global Competitiveness Report þar sem vísitalan er birt.  Sala-i-Martin kom hingað til lands og fjallaði um samkeppnishæfni á vordögum.

10 efstu ríkin eru þessi:

  1. Bandaríkin
  2. Sviss  
  3. Danmörk  
  4. Svíþjóð   
  5. Singapore    
  6. Finnland  
  7. Þýskaland  
  8. Holland  
  9. Japan  
  10. Kanada.  
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert