Segja Bakkavör á svörtum lista

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru stærstu hluthafarnir í Bakkavör
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru stærstu hluthafarnir í Bakkavör Brynjar Gauti

Bakkavör Group hefur skipað sér á bekk illa þokkaðra fyrirtækja í Evrópu og á heimsvísu að mati launþegasamtaka. Fyrirtækið virðist eiga við fjárhagsörðugleika að stríða og mun því segja upp um 1500-2000 manns af um 14.000 starfsmönnum sínum á Bretlandseyjum, að því er fram kemur á vef Starfsgreinasambandsins.

„Bakkavör virðist ekki fara að lögum um evrópsk samstarfsráð sem skylt er að starfræka í fjölþjóðlegum fyrirtækjum á evrópska efnahagssvæðinu. Einnig hefur fyrirtækið valið að vilja ekki undirgangast þá eðlilegu kröfu að virða grundvallarréttindi launafólks og hafnar samstarfi við hina evrópsku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu í því sambandi. Þess var óskað i framhaldi af staðhæfingum um að Bakkavör bryti á bak aftur tilraun starfsmanna til að stofna verkalýðsfélag til að semja um kaup og kjör hjá fyrirtækinu í Bandaríkjunum," að því er segir á vef Starfsgreinasambandsins.

Á stjórnarfundi EFFAT (European Federation of Food, Agriculture and Tourism Trade Unions) þann 20. nóvember sl. voru málefni Bakkavarar Group m.a. til umræðu. Fram koma að fyrirtækið á við fjárhagsörðugleika að stríða og mun því „hagræða,“ og segja upp um 1500-2000 manns af um 14.000 starfsmönnum sínum á Bretlandseyjum. Hjá Bakkavör starfa nú um 20 þúsund manns, m.a. í Belgíu, Hollandi, USA, Suður Afríku og Kína auk Bretlands, samkvæmt Starfsgreinasambandinu.

„Þótt fyrirhugaðar uppsagnir veki ugg, voru þær ekki megin ástæða umræðunnar, heldur sú staðreynd að Bakkavör virðist ekki fara að ESB-lögum um evrópskt samstarfsráð (EWC- Eouropean Work Council) sem skylt er að starfræka í fjölþjóðlegum fyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þá hefur fyrirtækið neitað samstarfi við IUF, Alþjóðasamtök starfsfólks í matvælaiðnaði og Starfsgreinasamband Íslands og að undirrita viljayfirlýsingu um að fyrirtækið vilji framfylgja leikreglum Alþjóða vinnumálstofnunarinnar (ILO) um grundvallarréttindi launafólks.

Þess var óskað i framhaldi af staðhæfingum um að Bakkavör bryti á bak aftur tilraun starfsmanna til að stofna verkalýðsfélag til að semja um kaup og kjör hjá fyrirtækinu í Bandaríkjunum," samkvæmt vef Starfsgreinasambandsins.

Nánar er fjallað um Bakkavör á vef Starfsgreinasambandsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert