Kínaforseti segir að breytingar í lýðræðisátt væru blindgata

Hu forseti ræðir við nemendur í barnaskóla í Peking í …
Hu forseti ræðir við nemendur í barnaskóla í Peking í síðustu viku. AP

Hu Jintao, forseti Kína, sagði í ræðu í dag að hann væri andvígur því að vestrænir stjórnkerfishættir yrðu innleiddir í Kína. Slíkt væri blindgata. Jafnfram fór hann ófögrum orðum um spillta embættismenn. Á morgun hefst árlegur fundur miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins í Peking. Hu hefur verið forseti síðan 2002 og leitast nú við að auka trúverðugleika flokksins með því að bæta tengslin við almenning og ráðast gegn spillingu. Fréttaskýrendur segja Hu aftur á móti ekki sýna neinn áhuga á víðtækari stjórnmálaumbótum.

Á fréttavef BBC segir að það sem mesta athygli muni vekja á miðstjórnarfundinum, sem stendur til sunnudags, sé hvort Jiang Zemin, fyrrverandi forseti, muni segja af sér eina embættinu sem hann enn gegnir, formennsku í herráðinu, og láta Hu taka við því. Fari svo hafi Hu tekist að festa sig endanlega í sessi sem æðsti leiðtogi Kína.

Hu sagði að núverandi kerfi í Kína væri vænlegt og betri en önnur. Engir vestrænir kerfishættir, eins og til dæmis aðskilnaður framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, eða fjölflokkakerfi, yrðu innleiddir í Kína.

„Við munum aldrei apa í blindni eftir stjórnmálakerfinu í öðrum löndum,“ sagði Hu. „Sagan sýnir að það er blindgata fyrir Kínverja að taka hugsunarlaust upp vestræna stjórnkerfishætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert