Fornt skíði finnst á Grænlandi

85 sentímetra langur viðarbútur sem fannst á suðurhluta Grænlands árið 1997, er sennilega skíði sem fornnorrænir menn sem komu að landi á Grænlandi fyrir meira en 1100 árum notuðu. Samkvæmt sérfræðingum sem Fréttavefur Morgunblaðsins hefur rætt við er sennilegt að skíðið hafi fundist á slóðum þar sem íslenskir landnámsmenn stofnuðu byggð.

Eiríkur rauði kom að landi á suðurhluta Grænlands árið 986 og stofnaði norræna byggð þar.

Viðarbúturinn er 9 sentímetrar að breidd með ávölum brúnum, en hann fannst við uppgröft fornnorrænnar byggðar í námunda við bæinn Nanortalik.

Búturinn hefur verið geymdur á grænlenska þjóðminjasafninu í Nuuk, höfuðborg landsins. Hann var ekki rannsakaður ítarlega fyrr en á þessu ári, þegar vísindamaðurinn Joel Berglund gerði svonefnt geislakolapróf á viðnum.

Berglund sagði niðurstöðu prófsins sýna að viðarbúturinn, sem annaðhvort er úr lerki eða þini, væri frá árinu 1010 um það bil. „Mjög líklega er um að ræða það sem kallað er stutt skíði,“ sagði Berglund í samtali við AP-fréttastofuna. Bætti hann við að sennilega hefði verið farið með viðarbútinn til Grænlands frá Noregi af fornnorrænum mönnunum sem fyrst stigu fæti á Grænland í kringum árið 980 eftir Krist. „Þetta er þá elsta skíðið á Grænlandi,“ sagði Berglund.

Hann sagði að víkingar hefðu farið á hestum og bátum að suðurodda Grænlands. „Við vitum líka að norrænir menn notuðu skíði mikið, en enginn annar viðarbútur fannst á svæðinu, svo kannski notuðu þeir þau ekki svo mikið á Grænlandi,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert