16 af 50 ítölskum þingmönnum reyndust hafa neytt kannabisefna eða kókaíns

Kannabisvindlingur.
Kannabisvindlingur. mbl.is

Svo virðist sem þáttagerðarmönnum í ítölsku sjónvarpi hafi tekist að koma upp um eiturlyfjaneyslu ítalskra þingmanna í grínþættinum Le Lene eða Hýenunum. 16 þingmenn af 50 í neðri deild þingsins virtust hafa neytt annað hvort kannabisefna eða kókaíns einum og hálfum sólarhringi áður en prufur voru teknar af þeim, en útsendari þáttarins náði svita af enni þingmannanna í þurrkur sem síðan voru efnagreindar.

Í þættinum er iðulega gert grín að opinberum aðilum og reynt að gera þá vandræðalega. Fréttamaður var sendur í þingið til að taka viðtöl við þingmennina um fjárlagafrumvarp næsta árs og var sminka með í för. Hún notaði sérstakar þurrkur til að þerra andlit þingmannanna. 12 af 50 þingmönnum reyndust vera með leifar kannabisefna í svitanum og sviti fjögurra var með leifum kókaíns.

Hýenuþátturinn er sýndur á Italia One sjónvarpstöðinni, en hún er í eigu fjölskyldu fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Silvio Berlusconi. Þingmennirnir 16 hafa ekki verið nefndir á nafn en ítölsk dagblöð hafa fjallað um málið í dag.

Leiðtogi Róttæka flokksins, Daniele Capezzone, segir þetta ekki koma sér á óvart en hann vill lögleiða kannabis. „Ég hef alltaf haldið því fram að ef lögregluhundur kæmist inn á ákveðna, opinbera vinnustaði stjórnmálamanna þá myndi nefið á honum blikka," segir Capezzone í samtali við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert