Benazir Bhutto látin

Benazir Bhutto, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Pakistan.
Benazir Bhutto, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Pakistan. Reuters

Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, lét lífið af sárum sem hún hlaut í sprengjuárás sem gerð var á kosningafund hennar í Rawalpildi í Pakistan. Um var að ræða sjálfsmorðsárás og létu 20 til viðbótar lífið í árásinni.

Bhutto lést klukkan 6:16 að pakistönskum tíma, 13:16 að íslenskum tíma, að sögn embættismanna í flokki hennar. Talsmaður pakistanska innanríkisráðuneytisins segir, að hugsanlega hafi Bhutto orðið fyrir kúlum, sem komið var fyrir í sprengjuvesti árásarmannsins.

Bhutto var flutt á sjúkrahús í Rawalpindi. Stuðningsmenn hennar hafa safnast saman utan við sjúkrahúsið og hrópa slagorð gegn Pervez Musharraf, forseta Pakistans. Nokkrir brutu niður glerhurð í aðalinngangi bráðamóttökunnar og aðrir grétu. 

Bhutto, sem fæddist árið 1953, var dóttir  Zulfikars Ali Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans en hann var dæmdur fyrir morð og tekinn af lífi 1979. Benazir gegndi fyrst embætti forsætisráðherra Pakistans árin 1988 til  1989 en þáverandi forseti landsins rak hana úr embætti vegna ásakana um spillingu. Benazir Bhutto gegndi aftur embætti forsætisráðherra árin 1993 til 1996 en var aftur rekin úr embætti vegna svipaðra ásakana.

Hún fór í sjálfskipaða útlegð til Lundúna en snéri aftur heim í haust til að taka þátt í þingkosningum, sem boðaðar hafa verið í janúar. Á fyrsta fundi hennar í Karachi létu 140 manns lífið í sprengjuárás en Bhutto sakaði ekki. 

Gert er ráð fyrir því, að forsetakosningunum verði væntanlega frestað eða þeim aflýst í kjölfar þessara atburða. 

Fólk fjarlægir lík af staðnum þar sem sprengjuárásin var gerð.
Fólk fjarlægir lík af staðnum þar sem sprengjuárásin var gerð. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka