Annálaður furðufugl orðinn borgarstjóri Lundúna

Ken Livingstone, t.v, óskar Boris Johnson til hamingju með sigurinn …
Ken Livingstone, t.v, óskar Boris Johnson til hamingju með sigurinn í borgarstjórakosningunum. Reuters

Boris Johnson, sem nú hefur verið kjörinn borgarstjóri Lundúna, er annálaður og skemmtilegur furðufugl en nýtur vinsælda og virðingar fyrir óhefðbundna framkomu og skoðanir, sem hann hikar ekki við að opinbera.

Í grein, sem Ásgeir Sverrisson skrifaði í Morgunblaðið á síðasta ári kom fram að Johnson, sem er 43 ára, sé iðulega borinn saman við Bertie Wooster, sögupersónu P.G Wodehouse og einn litríkasta fulltrúa forréttindastéttarinnar í enskum bókmenntum. Johnson teljist að sönnu til yfirstéttarinnar líkt og Bertie Wooster og sennilega megi finna viss líkindi með þeim í tali og framgöngu. Boris Johnson sé á hinn bóginn ekki bjálfi og þurfi ekki á aðstoð sér hæfari manna að halda til að bjarga sér úr vandræðum. 

Alexander Boris de Pfeffel Johnson fæddist 19. júní 1964 í New York í Bandaríkjunum. Faðir hans, Stanley Johnson, var um skeið þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu og er afkastamikill rithöfundur. Móðir hans er listmálarinn Charlotte Wahl. Langafi Johnsons var Ali Kemal, síðasti innanríkisráðherra Ottomanaríkisins.

Boris Johnson nam við Eton og Oxford og sérhæfði sig í klassískum fræðum. Hann gerðist blaðamaður árið 1987 og hefur hann ritað nokkrar bækur er tengjast þeim vettvangi. Hann nam við Oxford-háskóla þar sem hann las einkum fagurfræði og fornaldarspeki. 

Að námi loknu gerðist Johnson blaðamaður við The Times. Hann var rekinn úr starfi ári síðar. Þaðan lá leiðin til The Daily Telegraph og var hann m.a. Evrópu-fréttaritari blaðsins. Þar á bæ kunnu menn vel að meta stíl hans og óhefðbundnar skoðanir og var hann um skeið aðstoðarritstjóri blaðsins.

Árið 1999 var hann ráðinn ritstjóri vikuritsins Spectator, sem telja má eitt helsta málgagn breskra íhaldsmanna. Sérviska og óheft skoðanagleði hefur löngum einkennt tímarit þetta og reyndist Johnson verðugur þeirrar upphafningar, sem hann hafði hlotið.  

Einkalíf Johnsons hefur löngum þótt í skrautlegra lagi. Hann var árið 2004 settur af sem ráðherra lista í skuggaráðuneyti Íhaldsflokksins eftir að upplýst hafði verið um fjögurra ára ástarsamband hans og blaðakonu einnar, sem starfaði við Spectator. Þótti sýnt að Johnson hefði verið staðinn að lygum enda hafði hann sagt fregnir af sambandinu tilhæfulausar með öllu.  Johnson hefur tvívegis gengið í hjónaband. Eiginkona hans er Marina Wheeler lögmaður. Þau eiga fjögur börn.

Johnson hefur nokkra reynslu af brottrekstrum enda var honum ungum sagt upp hjá The Times fyrir að hafa beislað skáldafákinn í frétt einni. Um brottvikninguna árið 2004 sagði Johnson í dálki sínum í The Daily Telegraph: „Kæru vinir, líkt og ég hefi reynt á sjálfum mér eru hörmungar ekki til, heldur aðeins ný tækifæri og þar ræðir raunar um tækifæri til að kalla yfir sig nýjar hörmungar." 

Johnson fer yfirleitt ferða sinna á reiðhjóli og hárgreiðslan minnir …
Johnson fer yfirleitt ferða sinna á reiðhjóli og hárgreiðslan minnir óneitanlega á fuglahræðu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka