Barnaafmæli veldur uppnámi í Svíþjóð

Sænskur drengur hefur valdið uppnámi þar í landi með því að bjóða ekki tveim skólabræðrum sínum í átta ára afmælið sitt. Hefur skólinn sem drengirnir ganga í sakað afmælisbarnið um að brjótta rétt á hinum tveim með því að skilja þá útundan. Hefur skólinn farið með málið fyrir sænska þingið.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC. Þar segir ennfremur að stjórnendur skólans, sem er í Lundi, segi að ef boðskortum sé dreift á skólalóðinni megi ekki mismuna nemendum.

Faðir drengsins hafi kvartað við umboðsmann sænska þingsins, og segi að ástæður þess að sonur sinn hafi ekki boðið umræddum skólabræðrum séu þær, að annar þeirra hafi ekki boðið honum í sitt afmæli, og vinslit hafi orðið með syni sínum og hinum drengnum.

Drengurinn dreifði boðskortunum í tíma, og þegar kennarinn varð var við að tveir strákar fengu ekki boðskort gerði hann öll kortin upptæk.

„Sonur minn er alveg miður sín út af þessu,“ sagði pabbi stráksins við Sydsvenska Dagbladet. „Það hefur enginn rétt til að leggja hald á eigur annarra með þessum hætti. Þetta er eins og að stela pósti.“

Úrskurður í málinu verður væntanlega felldur í september, áður en næsta skólaár byrjar, segir BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert