Engir bílar á laugardögum í New York

Manhattan New York
Manhattan New York Reuters

Eftir að áformum um sérstaka skattlagningu á miðborgarakstur var hafnað í New York í apríl hefur borgarstjóri borgarinnar Michael Bloomberg tilkynnt að þrír laugardagar í ágúst verði bílalausir dagar í stórborginni. Á þessum dögum mun 11 km langri leið sem tengir suðurhluta Brookyn Bridge við efri hluta austurbæjarins verða lokað. Nánar tiltekið frá Lower Manhattan til East 72nd Street, um Centre Street, Lafayette Street, Fourth Avenue og Park Avenue.

Jóga og dans

Þessa bílalausu laugardaga verða haldnir dans- og jógatímar víða á leiðinni. Þá verður einnig hægt að leigja sér hjól og víða verður komið fyrir stöðvum þar sem hjólreiðamenn geta hvílt sig, fengið sér vatn og dittað að hjólunum ef þarf. „Áætlunin er tilraunaverkefni og ef það gengur vel munum við án efa endurtaka leikinn. Ef ekki nær það ekki lengra en við höfum aldrei verið hrædd við nýjar hugmyndir hér í borg, sérstaklega ekki þær sem bætt geta lífskjör okkar,“ sagði Bloomberg þegar hann tilkynnti áætlunina.

Græn áform

Annars staðar í heiminum hefur verið gripið til svipaðra aðgerða til að stuðla að útiveru og umhverfisvernd. Í París hefur til að mynda verið búin til strönd meðfram Signu á sumrin í nokkur ár svo og í Bogota í Kólumbíu. Þar er aðalgötu borgarinnar lokað á hverjum sunnudegi og flykkjast meira en milljón manna þangað til að skokka, hlaupa og hjóla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert