Obama bað Nancy Reagan afsökunar

Nancy Reagan.
Nancy Reagan. Reuters

Barack Obama, sem á þriðjudag var kjörinn forseti Bandaríkjanna, hringdi í gær í Nancy Reagan, ekkju Ronalds Reagans, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og bað hana afsökunar á ummælum sem hann lét falla um að hún hefði haldið miðilsfundi í Hvíta húsinu.

Þegar Obama hélt blaðamannafund í Chicago í gær sagðist hann hafa rætt við alla núlifandi forseta Bandaríkjanna. Síðan brosti hann og bætti við, að hann hefði ekki viljað taka upp siði  Nancy Reagan um að halda miðilsfundi.  

Nancy, sem er 87 ára, leitaði stundum ráða hjá stjörnuspekingum þegar eiginmaður hennar var forseti, en ekki er vitað til að hún hafi haldið miðilsfundi til að reyna að ná sambandi við framliðna. 

Stephanie Cutter, talsmaður Obama, sagði í dag að forsetinn nýkjörni hefði hringt í Nancy Reagan til að biðjast afsökunar á þessum fljótfærnislegu ummælum. Sagði Cutter, að Obama hefði lýst því yfir að hann bæri mikla virðingu fyrir forsetafrúnni fyrrverandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert