Grunaður um annað morð

Kona ásamt barni sínu yfirgefur húsnæði þar sem fjölskyldur fengu …
Kona ásamt barni sínu yfirgefur húsnæði þar sem fjölskyldur fengu aðstoð eftir hnífaárásina í síðustu viku. YVES HERMAN

Talið er að maðurinn, sem myrti tvö börn og fóstru á dagheimili í Dendermonde í Belgíu í síðustu viku, hafi myrt eldri konu fyrir tíu dögum.

Hinn tuttugu ára gamli Kim De Gelder er í haldi lögreglunnar. Lögreglan telur nú að De Gelder beri einnig ábyrgð á dauða 73 ára gamallar konu sem var stungin til bana 16. janúar í Beveren, á meðan eiginmaður hennar skrapp út að heimsækja nágrannana. Að sögn belgísks saksóknara eru afar skýr merki um tengsl milli morðanna.

Auk þess að myrða þrjá á dagheimilinu særði maðurinn tólf aðra, þar af tíu ung börn. Hann var handtekinn sama dag en að sögn lögreglunnar hefur hann verið afar ósamvinnufús. Hann var á laugardag ákærður fyrir morðin á dagheimilinu en börnin sem létust voru aðeins 6 og 9 mánaða gömul.

Talið er að De Gelder hafi einnig ætlað að ráðast inn á önnur dagheimili en í fórum hans fannst listi með nöfnum þriggja heimila, þ.á m. heimilisins sem hann réðst inn á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert