Umdeildar launahækkanir embættismanna ESB

Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel THIERRY ROGE

Tugir þúsunda starfsmanna Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eiga í vændum verðbólgutengda launahækkun um 3,7%, borgaða úr sjóðum ríkja sambandsins. Tilkynnt var í dag að alls 38.000 opinberir starfsmenn fengju launahækkunina ef stuðningur fengist frá öllum 27 aðildarríkjunum, en framkvæmdastjórnin hefur undanfarið lagt mikla áherslu á að Evrópulönd dragi úr launahækkunum í kreppunni.

Ákvörðunin hefur því fengið blendin viðbrögð. “Núll prósent hækkun hefði verið meira viðeigandi,” hefur AFP eftir stjórnsýsluráðherra Austurríkis, Gabriele Heinisch-Hosek, sem sagði jafnframt að tilmælin væru “algjörlega út í hött” nú á tímum efnahagsþrenginga.

Fjölmörg Evrópulönd, þ.á.m. Eistland, Lettland og Litháen, auk Grikklands, Írlands og Ungverjalands, hafa stöðvað allar launahækkanir í opinbera geiranum síðan kreppan skall á, samkvæmt tilmælum framkvæmdastjórnarinnar. Talsmaður stjórnsýslu ESB, Valeri Rampi, sagði í kjölfarið að það væri ekki framkvæmdastjórnarinnar einnar að ráðast í hækkanir eða lækkanir á launum opinberra starfsmanna, það væri gert í samræmi við þróun lifikostnaðar í 8 löndum ESB, Belgíu, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Lúxemborg og Hollandi.

Meðallaun fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar eru um 20.000 evrur, eða 3,6 milljónir kr, á mánuði. Nýskipaður forseti Evrópusambandsins, Herman Van Rompuy, mun fá hærri laun en forseti Bandaríkjanna Barack Obama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert