Ræða um leiðir til að aflétta flugbanni

Matvælum var í gær dreift til farþega sem eru strandaglópar …
Matvælum var í gær dreift til farþega sem eru strandaglópar í flugstöðinni í Frankfurt í Þýskalandi. reuters

Samgönguráðherrar Evrópusambandsríkjanna (ESB) munu funda með hjálp fjarfundarbúnaðar í dag og bera saman bækur sínar um hvort og hvernig megi létta á flugbanni sem gripið var til vegna gosösku sem borist hefur inn yfir Evrópu frá Eyjafjallajökli.

Flugbannið hefur raskað ferðaáætlun um 6,8 milljóna farþega en dagurinn í dag er sá fimmti sem það er í gildi. „Við getum ekki setið og beðið þess að öskuskýið fjari út,“ segir Siim Kallas sem fer með samgöngumál í framkvæmdastjórn ESB.

Bæði flugvallaryfirvöld og flugfélög hafa gagnrýnt flugbannið sem þau segja kosti flugfélögin ein og sér um 200 milljónir dollara á dag.

Skýið með hinni fíngerðu ösku frá Eyjafjallajökli teygir sig nú frá heimskautsbaugnum allt suður að Miðjarðarhafsströnd Frakklands og frá Spáni í vestri langt inn í Rússland í austri. Af völdum þess er loftrými lokað að hluta til eða öllu leyti í á þriðja tug Evrópuríkja.

Kappakstri á mótorhjólum sem fram átti að fara í Japan í gær og er liður í heimsmeistarakeppninni á mótorhjólum hefur verið frestað til 3. október vegna samgöngutruflana af völdum gosöskunnar frá Eyjafjallajökli.

Spænska fótboltaliðið Barcelona hafði vaðið fyrir neðan sig og lagði af stað í gær á rútu til Mílanó á Ítalíu þar sem það leikur gegn heimamönnum í evrópsku meistaradeildinni í vikunni. Gistu leikmenn í nótt í grennd við Cannes í Frakklandi en halda áfram og komast á leiðarenda í dag, en leiðin milli Barcelona og Mílanó er á annað þúsund kílómetra löng.


Rúta Barcelonaliðsins að leggja af stað.
Rúta Barcelonaliðsins að leggja af stað. reuters
Rýnt í upplýsingaskjái á flugvelli.
Rýnt í upplýsingaskjái á flugvelli. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert