Óttast umhverfisslys á Grænlandi eftir sjóslys

Óttast er að umhverfisslys sé í vændum eftir að Adolf …
Óttast er að umhverfisslys sé í vændum eftir að Adolf Jansen sökk.

Óttast er að umhverfisslys sé í vændum við Grænlandsstrendur eftir að skip sem innihélt um 20 þúsund lítra af dísilolíu og um 1000 lítra af mótorolíu sökk í firði við suðurhluta landsins á fimmtudag.

Skipið, Adolf Jansen, er um 30 metra langt og steytti það á skeri í firðinum Nanotalik með þeim afleiðingum að gat kom á skrokk skipsins.

Engan sakaði og tókst að koma öllum frá borði. Slökkviliðsmenn reyndu að dæla olíu úr skipinu áður en það fór endanlega niður. Þá hafa þeir fengið aukalegan búnað frá danska sjóhernum til að reyna að halda aftur af lekanum.

Meðal annars hefur verið sett á flot flotkví sem er um 50 metrar í þvermál umhverfis skipsflakið í þeirri von að hægt verði að takmarka útbreiðslu lekans. Sjónarvottar segja augljósa ólíubrák vera í sjónum umhverfis skipið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert