Milljarðaflugfloti tannlaus

Ein af nýju F-35-þotunum á flugi yfir Noregi. Norðmenn hafa …
Ein af nýju F-35-þotunum á flugi yfir Noregi. Norðmenn hafa nýverið keypt 52 slíkar vélar af Lockheed Martin-verksmiðjunum í Texas og kostar hver vél 1,74 milljarða norskra króna, eða 24 milljarða íslenskra króna. Ljósmynd/SSGT Kyle van der Wagen/USAF

Slíkur hörgull er nú á AMRAAM-flugskeytum í vopnabúri norska flughersins að öll tormerki eru talin á því að nýr tugmilljarða norskra króna flugfloti rúmlega fimmtíu F-35-orrustuþotna frá Lockheed Martin-verksmiðjunum í Texas í Bandaríkjunum geti haldið óvinveittum innrásarher í skefjum komi til árásar á landið.

Staðan núna, eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK hefur komist næst, er þannig að á ögurstundu nægði lagerstaða AMRAAM-flugskeyta í Noregi ekki til þess að fullbúa allar F-35-vélarnar slíkum skeytum, en vélarnar eru ein stærsta fjárfesting opinbera geirans í Noregi um dagana.

Varnarkerfi byggist á að vera nothæf

„Þetta er skelfilegt ef rétt reynist,“ segir Karsten Friis, öryggissérfræðingur við Utanríkismálastofnun Noregs, Norsk utenrikspolitisk institutt, „varnarkerfi byggjast á því að þau séu nothæf. Ef orrustuþotur geta bara flogið en ekki skotið er einhver ekki að sinna sínu starfi.“

NRK hefur upplýsingar sínar um vopnastöðuna eftir opinberum gögnum auk upplýsinga frá heimildarmönnum sem þekkja til stöðunnar sem telja verður ískyggilega í ljósi þess að AMRAAM-flaugarnar eru að sögn norska varnarmálaráðuneytisins „höfuðvopn norskra orrustuþotna til varnar loftrými landsins“.

Herinn neitar að staðfesta nokkuð um birgðastöðu flugskeytanna og ber því við að yfir þeim hvíli leynd. Afhendingartími AMRAAM-skeytanna er langur, allt að fjögur ár. Sextíu flaugar voru pantaðar eftir að bandarísk hermálayfirvöld veittu Norðmönnum heimild til kaupa árið 2017. Þær voru afhentar, en önnur sending, sem pöntuð var árið 2022, er ókomin.

NRK

Regjeringen.no

Breaking Defence

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert