Svipti sig lífi með sjálfsvígshylki

Fjöldi siðferðislegra og lagalegra spurninga hafa komið til tals vegna …
Fjöldi siðferðislegra og lagalegra spurninga hafa komið til tals vegna hylkisins. AFP

Lögreglan í Sviss hefur tekið nokkra höndum eftir að 64 ára gömul bandarísk kona svipti sig lífi með því að notast við umdeilt sjálfsvígshylki.

Hylkið, sem er á vegum fyrirtækisins Sarco, fyllist af nitri þegar það er notað í gegnum sjálfstýrðan takka sem er innan í því. Veldur nitrið því að manneskjan sem notar það missir meðvitund og lætur svo lífið sökum köfnunar.

Var hylkið notað á mánudag í Sviss, nálægt þýsku landamærunum.

Fjöldi siðferðislegra og lagalegra spurninga hafa komið til tals í kjölfar notkunar hylkisins og er haft eftir innanríkisráðherra Sviss að hylkið sé ekki löglegt.

Samtökin The Last Resort kynntu hylkið í júlí síðastliðnum þar sem þau sögðu að búist væri við að það yrði notað í fyrsta skipti á árinu.

Segir konuna hafa látist með friðsælum hætti

Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að konan sem lést hafi verið 64 ára bandarísk kona sem hafði þjáðst af alvarlegum veikindum tengdum ónæmiskerfi hennar í mörg ár.

Einn forseta samtakanna, Florian Willet, var sá eini sem var viðstaddur er konan tók sitt eigið líf og segir hann í tilkynningunni að lát hennar hafi borið að með friðsælum, hröðum og virðulegum hætti.

Að sögn stjórnvalda í Sviss hafa verið höfðuð sakamál á hendur nokkurra aðila fyrir að hafa hvatt og aðstoðað manneskju við að taka sitt eigið líf. Þá hafa nokkrir verið settir í gæsluvarðhald vegna málsins.

Þá hefur ríkissaksóknari bæjarins þar sem sjálfsvígið átti sér stað sagt að búið hefði verið að vara rekstraraðila hylkisins, Sarco, við að ef hylkið yrði notað í bænum myndu þeir sæta refsiverðum afleiðingum.

Manneskjan þurfi að standast geðrænt mat

Sarco var stofnað af Philip Nitschke sem hefur verið leiðandi aðili þegar kemur að dánaraðstoð.

Haft er eftir Nitschke að hann sé ánægður með að hylkið hafi virkað nákvæmlega eins og það átti að gera, þ.e.a.s. að valda valkvæðu láti, án eiturlyfja, á þeim tíma sem manneskjan sem notar það kýs að deyja.

Þá hefur komið fram að manneskja sem kýs að nota hylkið þurfi fyrst að standast geðrænt mat.

Þegar hylkið er notað þá klifrar viðkomandi inn í hylkið og er síðar spurður sjálfvirkra spurninga á borð við hvort viðkomandi viti hver hann er, hvar hann er og hvort hann viti hvað gerist þegar hann ýtir á hnappinn.

Hefur Nitschke áður útskýrt að þegar ýtt er á hnappinn lækkar súrefnismagnið í loftinu úr 21 prósenti í 0,05 prósent á innan við 30 sekúndum. Sá sem er inni í hylkinu missir fljótt meðvitund áður en hann deyr svo innan við um fimm mínútna.

Hylkið sé ekki í samræmi við lög

Hefur málið einnig vakið athygli að því leyti til að svissnesk lög leyfa almennt dánaraðstoð í landinu.

Hefur hins vegar innanríkisráðherra landsins, Elisabeth Baume-Schneider, sagt að hylkið sé ekki í samræmi við lög.

„Í fyrsta lagi uppfyllir það ekki kröfur laga um vöruöryggi og er því ekki hægt að setja það á markað. Í öðru lagi er samsvarandi notkun köfnunarefnis ekki í samræmi við tilgangsgrein efnalaga,“ sagði Blume-Schneider í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert