Borgarstjórinn ákærður í spillingarmáli

Eric Adams, borgarstjóri New York, stendur í ströngu.
Eric Adams, borgarstjóri New York, stendur í ströngu. AFP

Eric Adams, borgarstjóri New York-borgar, hefur verið ákærður í tengslum við ásakanir um spillingu.

Bandaríska fréttastofan CBS-News greinir frá þessu.

Adams, sem er 64 ára gamall, var kjörinn borgarstjóri New York fyrir þremur árum. Hann hét því í kosningabaráttu sinni að draga úr glæpum í borginni.

Hann, ásamt fleiri háttsettum embættismönnum borgarinnar, hefur verið í kastljósi fjölmiðla í tengslum við nokkrar rannsóknir sem snúa að spillingu innan borgarkerfisins.

Í umfjöllun BBC, sem á í samstarfi við CBS í Bandaríkjunum, segir að það verði greint frá ákærunum síðar í dag, en á meðal þess sem yfirvöld hafa verið að skoða er hvort kosningaskrifstofa Adams hafi hlotið ólöglega erlenda styrki frá Tyrklandi.

Adams yrði fyrsti borgarstjórinn í sögu New York sem yrði ákærður í sakamáli á meðan hann gegnir embætti.

Borgarstjórinn birti yfirlýsingu í gær þar sem hann hét því að berjast gegn þessu og halda áfram að þjóna borgarbúum. Hann bað þá um að sýna þolinmæði og biðja fyrir sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert