Ekkert lát á árásum Ísraelsmanna

Ísraelski herinn hélt áfram loftárásum á Líbanon í nótt.
Ísraelski herinn hélt áfram loftárásum á Líbanon í nótt. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Líbanon segja að fjórir hafi látið lífið í loftárásum Ísraelshers í suðurhluta Líbanon í nótt.

Í gær létust 72 í árásum Ísraelsmanna og alls hafa á sjöunda hundrað manns, þar af tugur barna, látið lífið í vikunni.

Yfirmaður ísraelska hersins hefur sagt hermönnum að búa sig undir hugsanlega sókn á jörðu niðri gegn Hisbollah sem eykur óttann um að átökin kunni að versna.

Frakkland og Bandaríkin lögðu til á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að gert yrði vopnahlé í 21 dag í Líbanon til þess að hefja sáttaviðræður.

Í yfirlýsingu ísraelska hersins í morgun segir að skotið hafi verið á 75 skotmörk Hisbollah í nótt. Þar segir að árásir hafi átt sér stað í Beqqa, skammt frá sýrlensku landamærunum og suðurhluta Líbanon og hafi beinst að vopnageymslum, herbyggingum og innviðum Hisbollah-samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert